144. löggjafarþing — 110. fundur,  21. maí 2015.

dagskrá næsta fundar.

[11:18]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Ég vil bara hafa það á hreinu gagnvart hv. þm. Jóni Gunnarssyni að það sem ég meinti áðan með því að minni hlutinn vildi bíða er að hann vill bíða eftir því að það ferli sem lög gera ráð fyrir nái fram að ganga til að fá inn þær upplýsingar (Gripið fram í.) sem þarf til að afgreiða málið.

Við erum að ræða dagskrána sem á er mál sem heitir áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða. (Gripið fram í: Við erum að ræða breytingartillöguna.) Við erum að ræða dagskrána, virðulegi forseti. (Gripið fram í: … þingsins.) [Háreysti í þingsal.]

(Forseti (EKG): Forseti biður um hljóð í salnum.) (Gripið fram í: Við erum að ræða atkvæðagreiðsluna.)

Virðulegi forseti. Ég verð að segja að mér er orðið alveg sama hvað hv. 2. þm. Reykv. s. finnst vera efnislegar umræður og hvað ekki.

Það er alveg skýrt að það þarf tiltekin gögn sem ég er búinn að útskýra hver séu til að það gæti ríkt sátt um ferlið. Um það snýst þetta mál, (Forseti hringir.) þetta vita menn alveg.