144. löggjafarþing — 110. fundur,  21. maí 2015.

dagskrá næsta fundar.

[11:41]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Það er sorglegt að sjá meiri hlutann á Alþingi kjósa að hafna því að taka til umræðu alvörumálin, ástandið á vinnumarkaði sem brýn ástæða væri til að ræða. Það er líka mikilvægt fyrir þjóðina að átta sig á að þingmenn stjórnarmeirihlutans hafna því tækifæri að ræða stöðu framhaldsskólans þar sem menntamálaráðherra fer um framhaldsskólana eins og engisprettufaraldur og fallöxin vofir yfir framhaldsskólum vítt og breitt um landið. Tækifæri til mennta skerðast á næstu vikum (Gripið fram í.) vegna aðgerða hæstv. menntamálaráðherra (Gripið fram í.) og það er enginn vilji af hálfu stjórnarmeirihlutans til að ræða (Forseti hringir.) þau mál í þingsal. [Kliður í þingsal.] (Forseti hringir.) Það er enginn vilji til þess af hálfu stjórnarmeirihlutans að ræða þá aðför. Ég sé á hv. þm. Höskuldi Þór Þórhallssyni, þingmanni Norðausturkjördæmis, að honum finnst auðvitað erfitt að sitja kyrr í sætinu undir þessari umræðu vegna þess (Forseti hringir.) að aðför menntamálaráðherrans beinist ekki síst að litlum skólum í kjördæmi hans, en það er dapurlegt að sjá að hann skuli ekki einu sinni lyfta litla fingri til að halda aftur af menntamálaráðherra í málinu. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)(Gripið fram í: Hárrétt. )(Gripið fram í: … ósanngjarnt.)