144. löggjafarþing — 110. fundur,  21. maí 2015.

lengd þingfundar.

[12:22]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg):

Herra forseti. Í mestu vinsemd bið ég forseta um að nýta sér ekki þessa heimild sem hann fékk með atkvæðum stjórnarmeirihlutans. Það er ekki málinu til framdráttar að því sé haldið hér áfram, það er ekki náttúrunni til framdráttar og ég efast um að það sé virkjunarsinnum til framdráttar. Ég bið virðulegan forseta að íhuga það afar vel hér á eftir, þegar dagskrá heldur áfram og fer að líða á daginn, að nýta sér ekki þessa beiðni.

Ég held við ættum að nýta daginn. Ég treysti á að hæstv. forseti geri það, boði til funda með formönnum flokka og formönnum þingflokka og reyni að finna sátta- og samningaflöt á þessu máli. Það er ótækt að við eigum eftir þrjá þingdaga í næstu viku — sá fjórði er eldhúsdagur og svo er það morgundagurinn og það sem eftir lifir af þessum degi — miðað við þau mál sem þó hefur komið fram að á eftir að ræða. Ekki er hægt að ætlast til þess og þess vegna tel ég mikilvægt að ræða þetta við forustufólk.