144. löggjafarþing — 110. fundur,  21. maí 2015.

um fundarstjórn.

[12:40]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg):

Herra forseti. Það kom í ljós í atkvæðagreiðslunni áðan að hv. þingmenn og hæstv. ráðherrar þessarar ríkisstjórnar vilja ekki ræða kjaramálin. Skilaboðin til launþega eru að pokinn sé tómur: Þið valdið verðbólgu og þess vegna getum við ekki gert neitt til að hægt sé að hækka lægstu launin. Við ætlum ekki að sýna á nein spil. Það er í þessu máli eins og mörgum öðrum.

Virðulegi forseti. Í ljósi þess sem við erum að ræða og eigum að gera í dag, um fundarstjórn forseta, hefði verið áhugavert að það lægi fyrir í skýrslu frá hæstv. forsætisráðherra, sem hefur verið óskað eftir, mat á afleiðingum verkfallsins fyrir þjóðarbúið þegar allt er komið til alls. Hér hefur mikið verið talað um verðbólgu og stöðugleika. Hann er ekki að finna í samfélagi okkar í dag og ekkert útlit fyrir það, því miður, heldur mikinn óstöðugleika og hann kostar.