144. löggjafarþing — 110. fundur,  21. maí 2015.

um fundarstjórn.

[12:48]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf):

Hæstv. forseti. Ég efast ekki um að hæstv. forseti hefur í raun, það mátti heyra á væli hans áðan, verið í miklum vandræðum með að ná einhverri sátt í þessu máli. Ég vil þó í fullri vinsemd benda hæstv. forseta á að hann hefur dagskrárvaldið, hann getur tekið þetta mál af dagskrá og tilkynnt þeim aðilum sem hér deila að það muni ekki verða rætt að fullu fyrr en búið er að setjast niður og finna lausn. Ég held að það dugi ekkert minna til en að það séu formenn stjórnarflokkanna sem setjist niður, jafnvel með þingflokksformönnum, því þá geta menn reynt að finna út úr því hvort ekki sé hægt að koma skikk á þingið með því að setja málið til hliðar. Nú er búið að ákveða að hér megi vera kvöldfundur, það er líka búið að ákveða dagskrána fyrir daginn í dag, en ég held að það væri ágæt byrjun, og hæstv. forseti hefur auðvitað fullt umboð til þess þótt hann hafi heimild til kvöldfundar, að hætta fundi klukkan átta í kvöld, forseti undirbúi svo morgundaginn með fundi með (Forseti hringir.) flokksformönnum og láti þá vita að málið fari ekki lengra nema menn komi með lausn í málið.