144. löggjafarþing — 110. fundur,  21. maí 2015.

ósk um fund forseta með þingflokksformönnum.

[14:10]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Mig langar til að biðja forseta að vera með okkur í því að einangra þetta vandamál, að við reynum að einangra þann vanda sem við blasir. Vandinn snýst um forustu ríkisstjórnarinnar í fyrsta lagi, forsætisráðherra og fjármálaráðherra, og um forustu atvinnuveganefndar, hv. þm. Jón Gunnarsson. Ég held að afar mikilvægt sé ef við förum að horfa til einhverra lausna í málinu að þessi vandamál verði tekin út fyrir sviga, þ.e. að við reynum að nálgast viðfangsefnið þannig að þetta vandamál trufli ekki þá nálgun, vegna þess að ef við erum alltaf með hv. þm. Jón Gunnarsson eða hæstv. forsætisráðherra Sigmund Davíð Gunnlaugsson eða Bjarna Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, með í tilrauninni til að finna lausn, þá finnum við ekki lausn. Ég held að það sé kannski stóra vandamálið, að við finnum ekki lausnina fyrr en við hjálpumst að sem hér erum, vel meinandi þingmenn úr öllum (Forseti hringir.) flokkum og virðulegur forseti, (Forseti hringir.) við að taka vandamálið, einangra það til hliðar og reyna lausn með vel meinandi friðelskandi fólki á Alþingi.