144. löggjafarþing — 110. fundur,  21. maí 2015.

ósk um fund forseta með þingflokksformönnum.

[14:28]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Herra forseti. Hv. þm. Jón Gunnarsson, formaður atvinnuveganefndar, kallar eftir hugmyndum Samfylkingarinnar um hvað ríkið gæti lagt til inn í kjaradeilurnar. Þar sem hv. þingmaður kallar eftir því undir þessum lið um fundarstjórn forseta, þá get ég ekki skilið hann öðruvísi en hann óski eftir því að það verði gefið rými hér í dagskrá þingsins til að forustumenn Samfylkingarinnar geti komið með hugmyndir sínar um lausnir. Ég vil taka undir þá ósk hv. þingmanns og óska eftir því að forseti fari með þær hugmyndir inn á fund þingflokksformanna, því að ég geri ráð fyrir og óska reyndar eftir því að forseti gefi upplýsingar um hvort það séu ekki örugglega fundir með þingflokksformönnum um þá stöðu sem er hér í þinginu og leiðir til að fara út úr þessum ógöngum.