144. löggjafarþing — 110. fundur,  21. maí 2015.

markaðslausnir í sjávarútvegi.

[15:15]
Horfa

Björt Ólafsdóttir (Bf):

Virðulegi forseti. Ég þakka umræðuna, hún hefur verið mjög góð, ég þakka þau fjölmörgu atriði sem bæði hv. þingmenn og hæstv. ráðherra hafa komið inn á. Það eru fjölmörg atriði sem ég vildi kommenta á, í fyrsta lagi veit ég kannski ekki alveg í hvaða samfélagi hv. þm. Ásmundur Friðriksson á heima en í því samfélagi sem ég bý er ekki sátt um veiðileyfagjöldin. Við erum að tala eitthvað í kross. En eins og ég fór yfir í ræðu minni er ég alls ekki að átelja kvótakerfið og þá sjálfbærni sem var sett af stað þegar því var hrundið af stað fyrir 30 árum. Ég er að átelja það að árið 2015 þegar allt annað árferði er uppi, við stöndum okkur vel í sjávarútvegi, þá eigi enn og aftur að gefa veiðiheimildir. Það er bara annað upp á teningnum nú en þá.

Það hefur sannarlega verið framþróun eins og hæstv. ráðherra fór hér yfir, en má ég þá skilja hann svo að við séum að mati ráðherra komin á endastöð, að við getum ekki bætt um betur? Ég vil leggja til markaðslausnir í sjávarútvegi til að bæta um betur. Auðvitað eru atriði þar sem þarf að skoða og uppboð munu þýða breytingar. Eins og ráðherra sagði eru allir sammála um það og hagfræðingar eru einmitt sammála um að þessar breytingar eru aukinn arður til þjóðarinnar, þeir eru sammála um það, en eftir breyttum forsendum. Við getum kannski illa barist við iðnbyltinguna og það að sífellt þarf færri hendur (Forseti hringir.) í sjávarútvegi en þá þurfum við að taka út arðinn á annan hátt og það gerum við með því að bjóða upp aflaheimildir.