144. löggjafarþing — 110. fundur,  21. maí 2015.

ummæli sjávarútvegsráðherra og sameining skóla.

[15:25]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Af hálfu okkar í þingflokki Samfylkingarinnar óskaði hv. þm. Guðbjartur Hannesson fyrir allnokkru síðan eftir sérstakri umræðu við hæstv. menntamálaráðherra Illuga Gunnarsson um sameiningu Iðnskólans í Hafnarfirði eða einkavæðingu hans. Nú þegar fram er komið lögfræðiálit frá landsþekktum og virtum hæstaréttarlögmanni eins og Andra Árnasyni, (Gripið fram í.) um að hér sé verið að fara á svig við lög og að Alþingi sé sniðgengið og að málið þurfi lögum samkvæmt að leggja fyrir þingið, þá er algerlega nauðsynlegt að kalla hæstv. ráðherra hingað tafarlaust og setja þessa sérstöku umræðu á dagskrá svo að hann geti svarað fyrir það að hann skuli með löglausum hætti ætla að sniðganga þingið.