144. löggjafarþing — 110. fundur,  21. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[16:19]
Horfa

Páll Valur Björnsson (Bf) (andsvar):

Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Með þetta málþóf, ég er ekki alveg sammála því að þetta sé málþóf. Þetta er mál sem verður að ræða og menn eru ósáttir við fundarstjórn forseta, að málið sé sett á dagskrá og þá hafa þeir þennan lið til að tjá sig um það. Þingmenn þekkja það, kannski ekki hv. þingmaður heldur t.d. hv. þm. Unnur Brá Konráðsdóttir sem sat hér á síðasta kjörtímabili, að þetta var nú aldeilis notað þá og lagði kannski grunninn að því hvernig þetta er í dag. En ég ætla svo sem ekkert að fara að kenna einum eða neinum um. Hv. þingmaður talaði um að við værum búin að fara 200 sinnum í ræðustól um fundarstjórn … (ÁsF: Áætlað.) Áætlað. Þar af hafa stjórnarþingmenn farið yfir 80 sinnum í ræðustól um fundarstjórn forseta.

Hvað varðar Flóamálið þá verð ég að játa að ég er ekki alveg inni í því máli. Ég las um þetta á sínum tíma og var ekki umhverfisráðherra dæmd fyrir þetta? (Gripið fram í: Jú. ) Já, lögbrot. Ég meina, hún var dæmd fyrir þetta.