144. löggjafarþing — 110. fundur,  21. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[18:25]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég ítreka þá beiðni okkar að nú verði gert hlé á þessum fundi og menn fari og hói saman þingflokksformönnum og leiti lausna á því með hvaða hætti við getum farið að koma hér brýnum málum á dagskrá. Eftir um það bil tíu daga stefnir í fjölmennasta verkfall Íslandssögunnar. Ég hef aldrei upplifað slíkt á ævinni, það hefur ekki nokkur maður. Finnst stjórnarþingmönnum það í alvörunni ekki vera verkefni okkar að reyna að finna leiðir til þess að svara kalli þeirra sem munu fara í verkfall? Það er enginn sem tekur léttilega ákvörðun um að fara í verkfall.

Getur verið, virðulegi forseti, að menn hafi ekkert fram að færa eða telji sig ekki hafa neitt fram að færa og þess vegna séu þeir ekki tilbúnir í samtalið og (Forseti hringir.) þess vegna felli þeir tillögur hér á hverjum einasta morgni (Forseti hringir.) um að ræða þau mál?