144. löggjafarþing — 110. fundur,  21. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[19:04]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég skal svara mjög skýrt. Er ég búinn að henda eða á að túlka það þannig að henda eigi gögnum frá fyrri umræðu? Svarið er afdráttarlaust nei. Það er beðið um að afgreiða viðbótarupplýsingar og afmarka sig við það sem gerð var athugasemd við. Það er eingöngu verið að biðja um það. Verkefnisstjórnin er að svara því, og þá segi ég: Bíðum eftir því og tökum síðan ákvörðun.

Nei, hv. þingmaður og þeir sem styðja meirihlutaálit atvinnuveganefndar ætla ekki að gera það, þurfa ekkert að hlusta á það. Hún fær að vita að það geti farið í gegnum umhverfismat með laxarök. Verkefnisstjórnin fékk frá hæstv. ráðherra þessarar ríkisstjórnar það verkefni að láta skoða það. Verkefnisstjórnin svaraði: Við þurfum lengri tíma til þess. Það er beðið um að flýta því. Við skulum standa saman að því að skaffa pening til að ljúka því en ekki láta eins og verkefnisstjórnin verði gerð óvirk með ákvörðunum hv. þingmanna úr atvinnuveganefnd. Það er þetta sem málið snýst um, það er nákvæmlega þetta sem málið snýst um. Það er ekki verið að henda neinu, það eru viðbótarkröfur sem verið er að biðja um svör við áður en við tökum málið til afgreiðslu. Við erum að biðja um að fylgt verði tillögu umhverfisráðherra núverandi ríkisstjórnar.