144. löggjafarþing — 110. fundur,  21. maí 2015.

um fundarstjórn.

[20:22]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf):

Hæstv. forseti. Ég ætla að vekja athygli hæstv. forseta á því að það er verið að ræða menntamálin í fjölmiðlum í framhaldi af fréttum af ólögmæti þess að leggja Iðnskólann í Hafnarfirði undir Tækniskólann. Hver ætli sé rökstuðningurinn þegar menn fara að tala um hvort þeir megi þetta eða megi það ekki? Það er vísað til fjárlaga og það á að breyta þessu í haust, væntanlega eftir að skólarnir eru byrjaðir, með fjárauka í desember. Það sem er enn þá verra er að það er vitnað í nefndarálit meiri hluta fjárlaganefndar þegar menn tala um stefnu í heilbrigðis- og menntamálum. (Gripið fram í.) Hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson og hv. þm. Vigdís Hauksdóttir eru að véla um stefnuna í þessum málaflokkum. Er þetta fyrirkomulagið á nefndarstörfum og því sem við erum að skipuleggja á hv. Alþingi? Ég hef verulegar áhyggjur af þessu. Þetta gengur engan veginn upp. Síðan er vitnað í hagræðingarhópinn sem skilaði 120 tillögum eða hvað þær voru margar. Þar af eru 90 sem hafa legið á borðunum hjá okkur sem vorum ráðherrar áður, misvitrar og ómögulegar, og þær eru teknar sem eitthvert plagg sem sé búið að samþykkja. (Forseti hringir.) Þetta eru ótrúleg vinnubrögð við áætlanagerð, (Forseti hringir.) skipulag og áherslur sem þingið á að hafa. (BjG: Heyr, heyr!)