144. löggjafarþing — 111. fundur,  22. maí 2015.

mæting stjórnarliða.

[10:54]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Staðan var sú í efnahags- og viðskiptanefnd að kl. 08.13.56 kom SMS um boðun fundarfalls og vantar þó ekki verkefnin þar. Greinilega hefur fleirum gengið illa að vakna í morgun. Þetta er ekki alveg að gera sig. Auðvitað hefur meiri hlutinn og forseti meiri hlutans rétt til þess að láta þetta eina mál eyðileggja allt í þinginu, það er val út af fyrir sig, en minni hlutinn hefur líka stjórnarskrárvarinn og lögvarinn rétt. Það liggur ljóst fyrir að við munum nota okkur hann.

Ég verð að segja alveg eins og er að ég botna bara ekkert í því að skynsemisöfl, hófsemdaröfl, raunsæisöfl í þessari ríkisstjórn skuli ekki fara að taka í taumana, eða eru þau engin til? Erum við bara fangar þeirra manna sem hafa gert hér allt vitlaust frá fyrsta degi eftir að málinu var vísað (Forseti hringir.) í vitlausa nefnd og frá því að fréttist af breytingartillögubrölti meiri hluta atvinnuveganefndar? Það ætti ekki að koma neinum á óvart, það er búinn að vera um þetta ófriður í allan vetur.