144. löggjafarþing — 111. fundur,  22. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[16:51]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka þingmanninum mjög góðar spurningar. Ég held að við ættum einmitt að vera í þessari umræðu en ekki umræðu um þessa dæmalausu breytingartillögu.

Ég held að það skipti máli að Alþingi afsali sér ekki valdi í þessum málum að öllu leyti. Við erum lýðræðisríki með kjörnum fulltrúum sem taka ákvarðanir. En í ljósi þess að rammaáætlun var búin til af því að það var stöðugt stríð á þessum vettvangi held ég að hið pólitíska vald eigi að einsetja sér að við séum ekki að taka hér endanlegar ákvarðanir um svæði andstæðar faglegu mati. Við getum frekar sagt eins og á síðasta kjörtímabili: Við ætlum ekki að taka endanlegar ákvarðanir núna um þetta svæði. Við erum ósammála því að það eigi að gerast. Við viljum vísa því til frekari rannsóknar eða frekari skoðunar.