144. löggjafarþing — 112. fundur,  26. maí 2015.

verkleysi stjórnarmeirihlutans.

[13:38]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf):

Herra forseti. Á miðnætti hefst verkfall hjúkrunarfræðinga við Landspítalann. Það kemur ofan í verkfall sem nú hefur staðið á áttundu viku hjá mörgum fagstéttum innan sjúkrahússins. Við höfum síðastliðnar tvær vikur verið að ræða tillögu sem ætti ekki að vera hér á dagskrá, en höfum ítrekað óskað eftir skýrslu frá forsætisráðherra um stöðuna á vinnumarkaði svo að við getum rætt við hann í þingsal um með hvaða hætti ríkisstjórnin er að taka á þessu ástandi. Hæstv. forsætisráðherra hefur ekki látið svo lítið að verða við þessari bón en flutti pistil á útvarpsstöðinni Bylgjunni og var svo í viðtali á eftir.

Ég legg til, hæstv. forseti, að til varnar þinginu fari forseti fram á það áður en forsætisráðherra hleypur úr húsi hér á eftir að hann flytji okkur slíka skýrslu. Hann getur gert það á morgun sem er fyrsti dagur verkfalls hjúkrunarfræðinga.