144. löggjafarþing — 112. fundur,  26. maí 2015.

ástand á vinnumarkaði og orð forsætisráðherra í fjölmiðlum.

[14:00]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Það er hárrétt hjá hæstv. forsætisráðherra að það er mjög mikilvægt að afleiðingin af óróanum á vinnumarkaðnum núna verði ekki óðaverðbólga og það þurfa allir að leggja sitt af mörkum í því efni, ekki bara þeir sem nú eru með opna samninga, heldur líka ríkisstjórn. Vegna þess hvernig hæstv. forsætisráðherra hagaði orðum sínum er líka óhjákvæmilegt að svara honum með því að segja: Jú, en það er ekki þannig að hjúkrunarfræðingar einir beri ábyrgð á því að koma í veg fyrir verðbólgu eða að þeir einir séu nú með opna samninga. Það eru auðvitað ákvarðanir ríkisstjórnarinnar sem hafa valdið því að við fáum ekki hámarksarð af auðlindum okkar til almennings, að við högum ekki skattheimtunni með eins sanngjörnum hætti og við gætum verið að gera, það eru þær ákvarðanir sem valda óróa og reiði. Nú eru mörg þúsund manns búin að boða sig á mótmæli klukkan fimm í dag. Þegar horft er á (Forseti hringir.) hvað fólk segist vilja mótmæla þá er það spilling, (Forseti hringir.) það er ákvörðunin (Forseti hringir.) um að gefa makrílinn og það er óánægja með launaójöfnuð í samfélaginu. Það eru staðreyndir (Forseti hringir.) sem hæstv. forsætisráðherra verður að taka alvarlega.