144. löggjafarþing — 112. fundur,  26. maí 2015.

yfirvofandi verkfall í ferðaþjónustu.

[14:19]
Horfa

forsætisráðherra (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F):

Virðulegur forseti. Hv. þingmaður spyr hér sérstaklega um ferðaþjónustuna og þá stöðu sem þar er uppi vegna yfirvofandi verkfalla og hvort stjórnvöld hafi gert eitthvað sérstakt til þess að bregðast við því.

Að mestu leyti er ferðaþjónustan á vegum almenna markaðarins. SA semur að miklu leyti við verkalýðsfélög varðandi ferðaþjónustuna. Hins vegar hafa stjórnvöld, eins og komið hefur fram, lýst sig reiðubúin til þess að koma að þeim samningum á ýmsan hátt, þ.e. við höfum lýst okkur reiðubúin til þess að skoða fjölmarga ólíka þætti en viljað að það sem stjórnvöld leggja til sé til þess fallið að verja hér efnahagslegan stöðugleika, og þá á ég ekki hvað síst við verðlagsstöðugleika, þ.e. stuðli ekki að verðbólgu sem skaðar náttúrlega launþega mest af öllu. Við höfum líka lagt áherslu á að niðurstaða kjarasamninga verði til þess að verja jöfnuð í landinu og auka hann heldur en hitt, og þar af leiðandi stutt þá viðleitni sem notið hefur allmikils stuðnings, heyrist mér, bæði hjá hluta launþega og atvinnurekenda, að sérstaklega þurfi að huga að stöðu þeirra lægst launuðu. Í ferðaþjónustunni eru allmörg störf sem teljast til láglaunastarfa eða eru að minnsta kosti undir meðaltekjum. Þau falla þá undir þá áherslu stjórnvalda að menn reyni sérstaklega að rétta hlut þeirra sem borið hafa minnst úr býtum.

Stjórnvöld eru því reiðubúin til að koma þarna að og tilbúin að skoða ýmsar leiðir til þess, en fyrst og fremst viljum við koma í veg fyrir að verðbólga fari úr böndunum vegna þess að það bitnar verst á lágtekjuhópum.