144. löggjafarþing — 112. fundur,  26. maí 2015.

áframhald umræðu um rammaáætlun.

[15:27]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf):

Hæstv. forseti. Þetta var þörf áminning. Ég kem einmitt hingað til að ræða dagskrá þingsins. Ég velti fyrir mér þeirri stöðu sem er komin upp núna þegar forseti tók þá ákvörðun að taka úr sambandi dagskrá þingsins. Hvernig sér hæstv. forseti fyrir sér fundi í nefndum? Er nefndatafla fallin úr gildi? Við fáum ekki að vita hvað við eigum að vera lengi hér, en það er ekki hægt að hafa nefndatöflu í gildi. Á ég þá sem formaður velferðarnefndar að gera ráð fyrir því að við fáum húsnæðisbótafrumvarpið ekki hingað til þingsins? Við fáum það kannski í smálekaskömmtum í gegnum fréttastofu RÚV. Er þá ekki von á slíku frumvarpi? Er hægt að gefa betri upplýsingar um það hvenær stöðugleikaskatturinn svokallaði á að koma hingað inn í þingið? Er hægt að fá að vita hvaða málum hæstv. ríkisstjórn hefur hugsað sér að reyna að ljúka hér? Gætum við fengið einhverjar upplýsingar nú þegar þessi óvissa er komin upp með dagskrána?