144. löggjafarþing — 112. fundur,  26. maí 2015.

raforkulög.

305. mál
[20:39]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég hafði fulla fyrirvara við þetta frumvarp þegar við ræddum það við 2. umr. og ég get trúað hv. framsögumanni fyrir því að efasemdir mínar eru ekki upprættar. Hins vegar á hann hrós og virðingu mína skilda fyrir hreinskilni sína. Hv. þingmaður sagði eiginlega opið að hafa þyrfti þennan hátt á til þess að hægt væri að taka ákvörðun um að leggja raflínur yfir lönd sveitarfélaga sem í grundvallaratriðum væru á móti því til þess að sinna þörfum stóriðjunnar. Þetta var það sem sagt var. Það var það sem ég gerði athugasemdir við við 2. umr.

Ég viðurkenni að frumvarpið hefur breyst og batnað, en í grundvallaratriðum sýnist mér að staðan sé enn þá sú að flutningsfyrirtækið leggur áætlun til tíu ára og ef sveitarfélag er á móti því fær það að fresta því að laga landnýtingu sína að framkvæmdaáætlun um átta ár, en þó aðeins ef flutningsfyrirtækið, eins og ég skildi mál hv. þingmanns, veitir jákvæða umsögn. En hvað ef sveitarfélagið vill það ekki? Það er hinn sovéski andi í þessu frumvarpi sem ég mælti á móti. Það hefur ekki breyst. Grundvallarumræðan sem varðar þetta frumvarp er hversu mikið vald á að gefa flutningsfyrirtækinu.

Ég ætla að taka dæmi sem ég ætla að biðja hv. þingmann um að svara, kannski skil ég þetta ekki alveg rétt. Er það þannig að að þessu samþykktu, ef stjórnvald, flutningsfyrirtæki vill ráðast í að setja línu yfir Sprengisand og sveitarfélögin báðum megin eru á móti, þá ræður samt flutningsfyrirtækið að lokum? Hver hefur vald til þess að grípa þar inn í? Þetta er meginkjarninn í umræðunni sem við vorum í síðustu tvær vikur og erum að byrja í kvöld.