144. löggjafarþing — 112. fundur,  26. maí 2015.

raforkulög.

305. mál
[20:42]
Horfa

Frsm. meiri hluta atvinnuvn. (Páll Jóhann Pálsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni fyrir spurninguna og álit hans. Hann er fullur efasemda, sem er kannski eðlilegt. Auðvitað eru menn efins, en einhverjum verðum við að treysta. Ég vil ekki taka undir það með hv. þingmanni að við séum að sinna þörfum stóriðjunnar. Það er gömul rulla eða grýla að með öllum línum sé verið að sinna þörfum stóriðju. Það er fullt af litlum og meðalstórum fyrirtækjum. Ef við tökum Norðurland, Eyjafjörðinn og það svæði, eru fyrirtæki þar sem fá ekki rafmagn. Það er farið að hindra uppbyggingu á þeim svæðum að meðalstórt fyrirtæki fær bara ekki rafmagn.

Varðandi sveitarfélögin er það að sjálfsögðu svolítið krítískt hvenær sveitarfélag á að geta neitað algjörlega. Ég spyr hv. þingmann á móti: Eigum við að hafa heildarhagsmuni alls landsins eða þrönga hagsmuni eins sveitarfélags? Ef línan þarf að liggja í gegnum lítið sveitarfélag og það segir nei og það hindrar uppbyggingu í sveitarfélaginu við hliðina, er hv. þingmaður þá sáttur við það, eigum við að láta þar við sitja? Eða getur (Forseti hringir.) hann verið sammála mér í því að þar séum við að fórna minni hagsmunum fyrir meiri?