144. löggjafarþing — 113. fundur,  27. maí 2015.

ákvörðun EES-nefndarinnar nr. 153/2014 um breytingu á X. viðauka við EES-samninginn.

515. mál
[11:16]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Hugsanlega er máttur Evrópusambandsins meiri en ég hugði. Ég sé það að fyrsta skref okkar í því að innleiða þessa tilskipun í íslenskan rétt leiðir til þess að hv. formaður utanríkismálanefndar fylkir sér undir gunnfána þeirra sem berjast gegn einkavæðingu og auknum einkarekstri í heilbrigðisþjónustunni, því að öðruvísi taldi ég ekki hægt að skýra og skilja hina prýðilegu ræðu sem hv. þingmaður flutti hér áðan. Hún kom mér ekki á óvart vegna þess að ég er hættur að undrast þann góða mann, svo hratt þroskast hann nú í sumum efnum. En þó mundi ég segja að þessu mætti hugsanlega jafna saman við það þegar Sál var á leiðinni til Damaskus og var lostinn eldingu og skildi alla hluti nýjum skilningi og talaði tungum, hugsanlega manna og engla, ég skal ekki segja hvort hv. formaður utanríkismálanefndar er byrjaður á því, en alla vega fannst mér söngurinn fallegur og styð hann í þessari vegferð. En svona gamanlaust þá er það gott að við erum sammála um þetta.

Það er hægt að sjá fyrir sér ákveðnar útfærslur á þeim leiðum sem þetta býður upp á. Ef vilji stjórnvaldsins væri fyrir hendi væri vel hægt að sjá það fyrir sér að skipulagður væri einhvers konar sjúklingatúrismi til útlanda þar sem einkaaðilar veittu tiltekna þjónustu sem ekki væri völ á hér á landi og íslenska ríkið borgaði. Það er vel hægt að hugsa sér það. En ég er þeirrar skoðunar að íslenska ríkið eigi bara að veita sína góðu þjónustu eins og það hefur í grundvallaratriðum gert mjög lengi. Gleymum því ekki að íslenska heilbrigðiskerfið, hvernig sem menn eru að tala það niður, er bara býsna gott og með því besta. (Forseti hringir.) Ég lýsi því svo yfir, herra forseti, að ég fagna því (Forseti hringir.) að við göngum hér í takt enn sem fyrr.