144. löggjafarþing — 113. fundur,  27. maí 2015.

samningur milli Íslands og Færeyja um fiskveiðar innan íslenskrar og færeyskrar lögsögu 2015.

609. mál
[11:54]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Það verður örugglega staður og stund til að rifja þetta allt betur upp (ÖS: Hún er núna.) og kannski er hún að einhverju leyti núna. Ég get ekki neitað því að mér fundust þetta vondir atburðir sem gerðust í tengslum við fundinn í Edinborg og hafði efasemdir um að við hefðum verið nógu vakandi á verðinum. Það var undarleg uppákoma þegar sendinefnd Íslands fór bara heim eins og allt væri búið og virtist engar grunsemdir hafa einu sinni um það að Færeyingarnir urðu eftir. Það hefði nú strax átt að kveikja einhver viðvörunarljós. Og kannski hefðum við líka getað unnið eitthvað betur úr þessu í framhaldinu. En við erum auðvitað þar sem við erum með þessi samskipti og það sem ég er einfaldlega að leggja áherslu á er að nú hefur þróunin orðið þannig að það er óhjákvæmilegt að við í mesta bróðerni og vinskap, en af einurð, þorum að ræða það. Og það er allt í lagi að það fréttist til lögþings Færeyja að hér hafi góðir vinir þeirra átt um þetta orðaskipti, vegna þess að þetta eru nýjar aðstæður sem við þurfum að einhverju leyti að horfast í augu við, að leiðir liggja ekki með sama hætti saman pólitískt og hagsmunalega eins og þær hafa lengst af og langoftast gert hvað varðar Ísland og Færeyjar.

Að sjálfsögðu verða þeir að passa upp á sig, það er enginn að gagnrýna það og það stæði síst á okkur Íslendingum að viðurkenna að menn þurfi að hafa fyrir sínum hlut og berjast fyrir sínu í þessum efnum. Það hefur sagan alla vega kennt okkur grimmilega og gerir enn, samanber það sem hv. þm. Össur Skarphéðinsson nefndi réttilega um Noreg, sem hefur auðvitað reynst okkur aftur og aftur mjög erfiður. Ég hef þá kenningu að að hluta til sé það uppsöfnuð gremja Norðmanna yfir því að þeir telja að Íslendingar hafi með harðfylgni náð of góðum samningum um norsk-íslenska síld, um kolmunnann, um veiðar uppi í Barentshafi, og séu einhvern veginn að reyna að rétta þetta af (Forseti hringir.) sögulega með því að vera okkur enn erfiðari í samskiptum í dag.