144. löggjafarþing — 113. fundur,  27. maí 2015.

ákvörðun EES-nefndarinnar nr. 88/2014 um breytingu á XIII. viðauka við EES-samninginn.

516. mál
[15:14]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Af því að hér er mikið rætt um Evrópusambandið þá vil ég bara biðja menn að hugsa til þess hver stýrir Evrópusambandinu. Nú er það þannig að í hverju einasta aðildarlandi er það upplifun almennings og þjóðkjörinna fulltrúa að þeir stýri engu, afskaplega litlu. Nú er það reyndar ekki þannig að þingmenn viðkomandi landa semji þær reglugerðir því að vandinn og stærsta ástæðan fyrir lýðræðishallanum er sú að þetta er embættismannabandalag sem erfitt er að sjá hver stýrir. Hæstv. utanríkisráðherra fór hér sérstaklega yfir það að sem betur fer er afskaplega lítið sem við þurfum að renna í gegnum þingið í samanburði við þau lönd sem eru í þeirri stöðu að vera föst í þessu tollabandalagi. Ég held að það sé rétt, virðulegi forseti, af því að sumir eru alltaf að tala með öðrum hætti hér inni, að sú rödd fái að heyrast. Ég hvet menn til að kynna sé umræður um Evrópusambandið í þeim löndum sem eru í Evrópusambandinu. (ÖS: Heill þér, varaforseti.)