144. löggjafarþing — 114. fundur,  28. maí 2015.

lyfjalög.

408. mál
[15:56]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil byrja á að þakka ræðumanni, hv. þm. Sigríði Ingibjörgu Ingadóttur, fyrir ræðuna. Ég og hv. þingmaður eigum það sameiginlegt að hafa nokkuð íhaldssöm varúðarsjónarmið uppi þegar kemur að þessu máli en vera engu að síður fylgjandi málinu.

Mig langar að spyrja hv. þingmann aðeins út í jurtalyfin og fæðubótarefnin og náttúrulyfin. Það kemur vel fram í reglugerð um lausasölulyf hvað má og hvað má ekki á meðan við erum á miklu grárra svæði varðandi ýmiss konar fæðubótarefni. Telur hv. þingmaður að við þurfum að skerpa á rammanum þegar kemur að því sem ekki flokkast sem hefðbundin lyf?