144. löggjafarþing — 115. fundur,  29. maí 2015.

túlkasjóður.

[11:28]
Horfa

Páll Valur Björnsson (Bf):

Hæstv. forseti. Enn og aftur berast okkur fréttir af því að félagslegi túlkasjóðurinn sé tómur og ekki verði úthlutað úr honum næst fyrr en 1. júlí. Þetta eru vondar fréttir fyrir alla sem vilja búa í samfélagi þar sem það er sameiginlegt markmið að gefa fólki eins jöfn tækifæri og mögulegt er. En þetta eru þó alveg sérstaklega vondar fréttir fyrir þá sem vegna heyrnarskerðingar eða af öðrum ástæðum þurfa á þeirri þjónustu að halda sem félagslegi túlkasjóðurinn greiðir fyrir því að ef ekki er úthlutað úr sjóðnum fer það fólk á mis við tækifæri til að taka þátt í leik og starfi og leggja sitt af mörkum. Við þær aðstæður er einnig augljóst að mikil hætta er á að fólki verði mismunað um þessa mikilvægu þjónustu á grundvelli efnahags. Mismunun um svo veigamikla hagsmuni er að sjálfsögðu ekki bara ámælisverð, heldur fer hún í bága við mannréttindasamninga sem banna mismunun fólks.

Ég vil einnig í þessu sambandi minna á að margáréttað er í samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks að stjórnvöldum ber að gera það sem þau geta til þess að tryggja fötluðu fólki tækifæri til jafns við aðra til þátttöku og virkni í samfélaginu án mismununar og án aðgreiningar.

Við framkvæmd samningsins er gert ráð fyrir miklu samráði við það fólk sem samningurinn nær til. Það ætti ekki að þurfa að taka fram sérstaklega, en því miður sýna dæmin annað. Við skipulag þessarar þjónustu verður að vera náið samráð hlutaðeigandi stjórnvalda við þá sem þjónustuna nýta þannig að hún mæti þörfum þeirra eins vel og mögulegt er. Sé það ekki gert kemur það niður á gæðum þjónustunnar og þannig er illa farið með almannafé.

Ég vil því spyrja hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra hvaða ráðagerðir hann hefur uppi um að styrkja félagslega túlkasjóðinn þannig að mögulegt verði að veita þá þjónustu sem hann tryggir allt árið. Og hvernig hafa stjórnvöld staðið að samráði við notendur þeirrar þjónustu sem sjóðurinn styrkir og fjallað um tillögur þeirra?