144. löggjafarþing — 116. fundur,  1. júní 2015.

áætlun um meðferð og ráðstöfun aflamagns sem dregið er frá heildarafla.

775. mál
[23:10]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Varðandi þetta áform með markaðina og dreifingu á þessum afla yfir tíma held ég að það sé eitthvað sem sé upplagt fyrir hv. nefnd að skoða, hún hefur kannski stuttan tíma núna en það má glíma við það.

Hvað varðar mælingar um afkomu og litla framlegð eða lítinn arð af strandveiðunum sjálfum þá hvet ég menn til að huga að mörgu í þeim efnum. Í fyrsta lagi er það þannig að menn eru kannski ekkert að sækja í þetta vegna þess að þeir ætli sér út úr því einhvern stórkostlegan gróða. Ég held að margir telji sig bara ágætlega stadda ef þeir ná að hafa sæmilega góð laun, skapa sér starf, viðurværi, með þokkalega góðum launum yfir sumarið. Þetta eru jafnvel tæki sem menn nota til annarra veiða líka, grásleppu eða annað því um líkt, þannig að menn eru ekki endilega að sækja í það að strandveiðarnar sem slíkar skili þeim mikilli ávöxtun á fjármunum sem þar eru bundnir samkvæmt einhverri ársgreiðslureglu eða öðru slíku.

Þær skila miklum óbeinum arði, þær skapa umsvif og líf, tekjur til hafna, (Forseti hringir.) menn kaupa kost o.s.frv. þannig að þjóðhagslega held ég að strandveiðarnar séu í öllu falli hagkvæmar. Þetta er einföld og ódýr aðgerð til að sækja aflann á grunnslóðina, og ég hef ekki áhyggjur af því að þjóðhagsreikningarnir séu neikvæðir í þessu sambandi.