144. löggjafarþing — 118. fundur,  3. júní 2015.

Stjórnarráð Íslands.

434. mál
[11:12]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég veit ekki alveg hvaða hugsun er þarna að baki en það vita þeir sem sátu í nefndinni og fóru yfir þetta. Ef ég horfi á þetta sem gamall starfsmaður í ráðuneyti mundi ég til dæmis horfa á nýju menntastofnunina þar sem er verið að sameina Námsmatsstofnun og Námsgagnastofnun og hluta af ráðuneytinu og færa út fyrir ráðuneytið og mér sýnist sú ráðstöfun veikja ráðuneytið. Það má hins vegar vera að hún styrki stofnanirnar. En það er svolítið búið að draga úr slagkrafti ráðuneytisins þegar búið er að færa sérfræðingana út í stofnanirnar.

Í frumvarpinu er líka gert ráð fyrir að hægt sé að draga stofnanirnar inn í ráðuneytið, ef ég skil þetta rétt, og búa til sérstaka stjórnsýslueiningu þar. Nú kann að vera að það séu einhver góð rök fyrir því að fara svona að þó að ég sjái það ekki og geti ekki séð að það sé brýnt að breyta lögunum hvað þetta varðar. En það verða þá fróðari menn en ég að fara betur yfir þetta með hv. þingmanni.