144. löggjafarþing — 118. fundur,  3. júní 2015.

Stjórnarráð Íslands.

434. mál
[15:31]
Horfa

Róbert Marshall (Bf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég fjallaði sem blaðamaður á síðustu árum síðustu aldar, töluvert um flutning Landmælinga upp á Akranes. Ég man mjög vel eftir þeim anda sem sá flutningur skapaði innan stofnunarinnar á þeim tíma. Þar var mikil úlfúð og auðvitað fór það svo á endanum að flutningurinn var dæmdur ólöglegur, ríkisstjórnin tapaði málinu, hún hafði ekki heimild til þess að gera þetta með þeim hætti sem gert var. Það er því óhjákvæmilegt að menn hafi dregið þann lærdóm af því að það þarf að vanda alveg sérstaklega vel til verka í þessum efnum og hugmynd um flutning Fiskistofu er skólabókardæmi um það hvernig á ekki að gera hlutina.

Mig langar til þess að spyrja hv. þingmann, vegna þess að hún hefur líka gegnt ráðherraembætti og þekkir vel til í stjórnsýslunni, um það sem hún nefnir í ræðu sinni um starfabókhald hins opinbera, sem mér finnst eiginlega alveg furðulegt. Getur það verið að ekkert slíkt sé til?