144. löggjafarþing — 120. fundur,  5. júní 2015.

um fundarstjórn.

[11:55]
Horfa

Páll Jóhann Pálsson (F):

Virðulegi forseti. Ég get ekki annað sem framsóknarmaður en komið hingað upp og varið okkur framsóknarmenn. Við tölum ýmist of mikið eða of lítið. Hvað getum við gert að því þó að við vöknum á undan öðrum [Hlátrasköll í þingsal.] og séum fyrr til að skrá okkur í störf þingsins?

Ég skráði mig ekki, af tillitssemi við minni hlutann, í störfin, ég vissi að fleiri framsóknarmenn voru hér á undan. Ég ætlaði að tala um sjómannadaginn og nýlegan úrskurð Hæstaréttar þar sem staðfest er að forkaupsréttur sveitarfélaga á veiðiheimildum er ekki til staðar. Það var margt sem ég hefði viljað segja.

Við framsóknarmenn notum bara dagskrána rétt og tölum undir réttum liðum. Við tölum í störfum þingsins, við tölum í ræðum, en við tökum ekki þátt í þeim skrípaleik sem á sér stað undir liðnum um fundarstjórn forseta, [Hlátrasköll í þingsal.] ekki nema að litlu leyti.