144. löggjafarþing — 120. fundur,  5. júní 2015.

um fundarstjórn.

[11:56]
Horfa

Elsa Lára Arnardóttir (F):

Já, ég er framsóknarmaður. — Hæstv. forseti. Hún er svolítið skemmtileg þessi umræða undir þessum dagskrárlið, fundarstjórn forseta, og varðar störf þingsins. Hér er rætt um það hvort einstaklingar stilli tölvurnar til að koma sér á mælendaskrá, það er kvartað undan of mörgum framsóknarmönnum í liðnum um störf þingsins og ýmislegt.

Ég vil taka það fram að ég bý uppi á Skaga og er með börn sem ég þarf að koma í skóla á morgnana. Ég bregð á það ráð að leggja af stað í vinnuna og parkera bílnum oft úti í vegkanti á Kjalarnesi til að skrá mig í störf þingsins, bíllinn sést oft þar.

Við öllum vandamálum er til lausn. Ég stilli ekki tölvur og ég vakna á morgnana til að koma mér í þennan dagskrárlið. Hann er vandrataður meðalvegurinn í því hvort maður tali of mikið eða of lítið, en ég kýs að segja frekar færri orð í stað þess að endurtaka alltaf sömu rulluna sem hefur komið fram ótal sinnum.