144. löggjafarþing — 125. fundur,  9. júní 2015.

ríkisfjármálaáætlun fyrir árin 2016--2019.

688. mál
[18:05]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég er sammála hv. þingmanni um að það er mikilvægt að auka framleiðni. Ég held að við þurfum meðal annars að auka framleiðni í opinbera geiranum. Ég er þeirrar skoðunar að við eigum að skapa aðstæður fyrir fyrirtækin. Ferðaþjónustan er gott dæmi um það. Það voru ekki stjórnmálamenn sem tóku ákvörðun um það að þetta skyldi fara eins og fór og eins og staðan er núna. Það er fyrst og fremst kraftur og frumkvæði í fólkinu í landinu sem gerir að verkum að þessi atvinnugrein er jafn stór og raun ber vitni. Ég hef tröllatrú á því að ef við gefum einstaklingunum tækifæri þá geti þeir best unnið úr sínum málum.

Auðvitað má ganga lengra varðandi skattalegt umhverfi fyrirtækja. Við þurfum sömuleiðis að leggja áherslu á menntamál sem menn ætla að gera og ýmislegt annað. Ég fer nú víða um heim og ég sé ekki þá mynd sem menn draga upp. Nú er ég ekki aðdáandi krónunnar, en mér finnst myndin sem menn draga upp af henni ekki stemma. Ég sé í það minnsta ekki það himnaríki sem er á stærra myntsvæði. Þar eru aðstæður reyndar mjög mismunandi.