144. löggjafarþing — 126. fundur,  10. júní 2015.

orð formanns atvinnuveganefndar.

[13:21]
Horfa

Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Ef til vill ætti að gefa hv. þm. Jóni Gunnarssyni möguleika á að koma í stólinn því að hann (JónG: Nei, ég má ekki …) er að ræða málin þarna í — (Gripið fram í.) ef til vill ættum við að gera undantekningu á þingsköpum. Hv. þingmaður fær undantekningu á öllum lögum og reglum, ferlum og forsendum, eins og hann kallaði það áðan sem við höfum samþykkt hér í einu hljóði sumt hvert. Í einu hljóði var rammalöggjöfin samþykkt. Núna er hv. þingmaður þannig að það þarf eiginlega að setja hann í ísbað, það þarf að kæla hann niður til að þingheimur geti farið að ræða eitt mikilvægasta mál á þessu kjörtímabili, losun hafta eða léttingu hafta. Hann gefur alltaf í. Það er sérkennilegt við hv. þingmann að hann gefur alltaf í. Áðan var hann að hóta stjórnarandstöðunni með einhverjum hætti, en nú er hann farinn að hóta hæstv. umhverfisráðherra, hóta honum þannig að hann sé tilbúinn að draga þessa tillögu til baka, bæði sínar eigin og tillögu fyrrverandi umhverfisráðherra, Sigurðar Inga Jóhannssonar, gegn því (Forseti hringir.) að hæstv. umhverfisráðherra Sigrún Magnúsdóttir brjóti þá löggjöf sem henni ber að starfa eftir og komi með fimm, sex, sjö, átta virkjunarkosti inn á þingið (Forseti hringir.) í boði Jóns Gunnarssonar í haust.