144. löggjafarþing — 126. fundur,  10. júní 2015.

stöðugleikaskattur.

786. mál
[14:12]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Herra forseti. Þegar á kemst samningur getur annar aðilinn krafist þess að hann verði uppfylltur. Hann getur meira að segja fengið fulltingi stjórnvalda til að krefjast efnda á samningnum. Engir slíkir samningar liggja fyrir í þessu máli, það hefur enginn kröfu um eitt eða neitt, enda hefur samtalið eingöngu átt sér stað við ráðgjafa stjórnvalda sem upplýstu um hvað það væri sem þeir mundu leggja til við stýrinefnd um afnám fjármagnshaftanna hvað varðar skattinn, hvað varðar stöðugleikaskilyrðin og hvað varðar breytingar á lögum um fjármálafyrirtæki til að greiða fyrir nauðasamningum. Þegar kallað var eftir því hvort ekki væri rétt að kynna þessi áform fyrir lykilkröfuhöfum féllumst við á það. Það var ráðgjöf ráðgjafahópsins að við ættum það samtal. Ég held að það hafi sýnt sig að það hafi gagnast okkur ágætlega. Þar var til dæmis hægt að hlusta eftir því hvað það væri sem kröfuhafar sæju helst fyrir sér að gera hvað varðar lengingar og fjárfestingar á skuldbindingum í landinu til þess endanlega að (Forseti hringir.) slípa til stöðugleikaskilyrðin. Að öðru leyti voru þeir bara að hjálpa sjálfum sér að komast til þess áfangastaðar sem við sögðum þeim að þetta mundi allt saman enda á.