144. löggjafarþing — 126. fundur,  10. júní 2015.

stöðugleikaskattur.

786. mál
[14:59]
Horfa

Karl Garðarsson (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég er ekki mikið gefinn fyrir það að koma í andsvör, mér finnst að menn eigi almennt að fá að hafa sínar ræður í friði, en þegar ræðurnar verða mjög undarlegar, eins og núna hjá hv. þm. Árna Páli Árnasyni, verður maður að koma upp og leggja aðeins orð í belg. Hv. þingmaður lagði í ræðu sinni mikið upp úr því að verið væri að fara svokallaða samningaleið, leið Samfylkingarinnar á sínum tíma. Hér er ekki verið að fara neina samningaleið. Hér er stillt upp tveimur kostum og menn hafa val um hvorn kostinn þeir velja. Í því felast ekki neinir samningar og það veit hv. þm. Árni Páll Árnason mjög vel. Það er einfaldlega rangt að þakka Samfylkingunni það.

Á fundi í Hörpu 23. apríl 2013 sagði hv. þm. Árni Páll Árnason að eignarréttur kröfuhafa væri varinn í stjórnarskrá og menn gætu ekki gengið endalaust inn þar og gert eignir kröfuhafanna upptækar, eins og hann orðaði það.

Nú spyr ég hv. þingmann: Hvað hefur breyst? Hvað varð um þennan stjórnarskrárvarða rétt kröfuhafa um að fá að hafa eignir sínar í friði? Hvað hefur breyst hjá hv. þingmanni á þessum tveimur árum sem liðin eru frá þessum fundi í Hörpu þar sem hann lét þessi ummæli falla? Enda var hv. þm. Árni Páll Árnason mjög harður á því alla kosningabaráttuna að verja hag kröfuhafa eins og allir vita sem fylgdust með þeirri baráttu. (KaJúl: Kjaftæði.) (Gripið fram í.) (Gripið fram í: Jæja.) [Háreysti í þingsal.]