144. löggjafarþing — 126. fundur,  10. júní 2015.

stöðugleikaskattur.

786. mál
[15:11]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Mér hafði verið tjáð að bæði hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra og forsætisráðherra ætluðu að vera við þessa umræðu en hvorugur þeirra er nú hér í salnum. Ég vek athygli forseta á því.

Í fyrsta lagi held ég að sé mikilvægt að orðræðan hér sé vönduð, þ.e. að menn noti rétt hugtök um það sem undir er. Menn tala hér um afnám fjármagnshafta eða afnám gjaldeyrishafta í tengslum við þetta mál. Það er ekki það sem hér er á ferðinni en það eru gríðarlega mikilvægar ráðstafanir og forsendur þess í raun að í framhaldinu sé hægt að vinda að minnsta kosti verulega ofan af fjármagnshöftunum. Það liggur þó ljóst fyrir að þau munu ekki hverfa að öllu, þannig að hugtakið afnám er rangt í tvennum skilningi. (Gripið fram í: Losun.) Losun fjármagnshafta, rýmkun fjármagnshafta, í kjölfar þessara ráðstafana er það sem hér er rætt.

Í öðru lagi vil ég segja, og það hefði hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra gjarnan mátt heyra, að ég er í aðalatriðum sammála upplegginu, ég er sammála þeirri forsendu sem menn hafa lagt til að nálgast lausn þessa máls sem er sú að úrlausn og slit gömlu bankanna, sem og það hvernig aflandskrónuvandinn verður losaður út úr hagkerfinu, eigi ekki að vera á kostnað gjaldeyrisstöðugleika, eigi ekki að íþyngja greiðslujöfnuði þjóðarbúsins og eigi ekki að fjármagna að einhverju leyti með skuldsettum gjaldeyrisforða okkar sjálfra. Það er mikilvægur útgangspunktur og reyndar held ég að hann hafi allan tímann verið sá. Allar hugmyndir um það hvernig við ynnum úr þessum þætti málsins hafa að sjálfsögðu byggt á því frá fyrsta degi að við færðum ekki frekari fórnir í þágu þess. Það er óhjákvæmilegt að renna hér aðeins yfir söguna þó að ég ætli ekki í einhvern umkenningaleik eða að eigna einum frekar en öðrum eitthvað í þessu, málið er stærra en svo og það er núið og framtíðin sem skiptir auðvitað öllu máli. Þannig að ég mun reyna að verja sem mestu af ræðutíma mínum í það.

Ég vil þó segja, virðulegi forseti, að nú sakna ég gömlu þingskapanna. Ég hefði gjarnan viljað hafa hér gömlu þingsköpin við umræðu um þetta mál og við hefðum getað haldið nokkuð myndarlegar ræður, að minnsta kosti helstu talsmenn flokka um þetta því að málið er stórt.

Í fyrsta lagi: Það var rétt ákvörðun að setja gjaldeyrishöft haustið 2008. Það var ekkert annað að gera og stór hluti endurreisnar íslenska efnahagslífsins og þjóðarbúsins hefur byggt á því, enda var ekkert annað hægt. Af hverju var ekkert annað hægt? Það var ekki bara vegna þess að við vorum með þessar óhemjufjárhæðir í eigu útlendinga inni í hagkerfinu, sem hefðu án fjármagnstakmarkana reynt að leita út fyrir gjldeyrismarkaðinn með skelfilegum afleiðingum, það var líka vegna þess að við áttum engan gjaldeyri sjálf. Eru menn búnir að gleyma því hvernig ástandið var í októberlok og í byrjun nóvember 2008 þegar verið var að kortleggja það hvernig við gætum notað síðustu leifarnar af gjaldeyri sem eftir var í landinu — til hvers? Jú, til þess að kaupa farseðil fyrir þáverandi fjármálaráðherra til Washington, til að biðja um lán og til þess að flytja inn lyf og olíu. Það var eftir um þriggja vikna forði í landinu til að kosta venjulegan vöruinnflutning.

Fyrsti skammturinn af gjaldeyrislánum í samstarfinu við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn kom í nóvember 2008. En vita menn hvenær næsti skammtur kom? Hann kom ekki fyrr en í október 2009 og það var vegna þess að starfsáætlunin við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn tafðist mánuðum og aftur mánuðum saman út af hinu erfiða Icesave-máli og reyndist Íslandi dýrt, tafði fyrir okkur, seinkaði endurreisninni að minnsta kosti um níu mánuði. Það var ekki ókeypis. Þá kom næsti skammtur þegar loksins tókst að knýja í gegn fyrstu endurskoðunina á samstarfsáætluninni við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn. Hvernig var staðan í millitíðinni? Jú, hún bjargaðist í sjálfu sér vegna þess að gengi krónunnar hafði hrunið um 50% og vöruskiptajöfnuðurinn varð myndarlega jákvæður vegna þess að við hættum í aðalatriðum að flytja inn nema rétt brýnustu nauðsynjar, en útflutningsstarfsemin hélst gangandi. En hún var ekki glæsileg til framtíðar litið. Þá var ekkert sérstaklega gaman að vera fjármálaráðherra Íslands á þessum mánuðum og fá endalaust á sig spurninguna: Herra Sigfússon. Stefnir í þjóðargjaldþrot? Stefnir í að Ísland geti ekki efnt skuldbindingar sínar? Já, það stefndi í það þangað til við vorum komin með gjaldeyri sem dugði fyrir afborgunum, bæði opinberra aðila og einkaaðila á næstu mánuðum og árum. Staðan fram að október 2009 er sú að Ísland átti ekki gjaldeyri fyrir gjaldtökum sem fram undan voru bæði á árinu 2010 og 2011, mjög stór gjalddagi 2011, einn milljarður Bandaríkjadala, sem við hefðum að sjálfsögðu ekki getað ráðið við nema með því að hafa aðgang að gjaldeyrismörkuðum eða hafa gjaldeyrislán á grundvelli samstarfs við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn og samstarfsþjóðirnar, Norðurlöndin og Pólland.

En það raknaði síðan vel úr þessu öllu saman og smátt og smátt þokuðumst við út af jarðsprengjusvæðinu. Áhættuálagið á Ísland á þessum mánuðum var 1.000 til 1.100 punktar. Við vorum langhæst af öllum þróuðum ríkjum. Það er ekki fyrr en seinna sem Grikkir tóku fram úr okkur og þegar við vorum farin að lækka. Þannig var nú það.

Ef við förum svo aðeins yfir höftin sérstaklega þá voru þau sett á í nóvember 2008 og var það rétt og óumflýjanleg ákvörðun, ekkert annað að gera. Fyrsta áætlunin um afnám hafta eða fyrsta kortlagningin á því hvernig hægt væri að fara í það verkefni kom fram í september 2009. Í október voru gerðar breytingar þannig að innstreymi á erlendum gjaldeyri til nýfjárfestinga var opnað. Það var svo í mars 2011 sem önnur áætlunin, nokkuð fullburðug áætlun, kom fram. Og í henni var hvað? Jú, í henni voru alveg þau sömu element og verið hafa við lýði og til umræðu æ síðan. Það var uppboðsleið, sem ákveðið var að fara til að minnka aflandskrónuvandann, snjóhengjuna, það voru skuldabréfaútgáfur eða skipti yfir í langtímapappíra til að binda fé í landinu, sem er áfram hluti af lendingunni hér, og það var skattlagningarleið. Þetta var allt þarna. Það var ekki útfært með sama hætti og er núna og myndin var ekki skýr. Og vegna þess að menn hafa hér rætt um það af hverju ekki var meira fjallað um búin í þeirri áætlun er ástæða til að upplýsa hvernig þetta gekk fyrir sig.

Ég fór að spyrja tiltölulega snemma, strax í lok árs 2009 og þegar kom inn á árið 2010: Vita menn hvort gjaldeyrisójöfnuður verður í útgreiðslum stóru þrotabúanna þegar þar að kemur? Hvert haldið þið að svarið hafi verið framan af? Nei, við vitum það ekki, en við giskum á að það verði ekki langt frá núlli. Sum búin kunna að vera skökk og eiga meiri eignir í innlendum krónum en sem nemur hlut innlendra kröfuhafa, önnur gætu verið í plús, þá fengjum við gjaldeyri í reynd á móti, þannig að það er ekki ólíklegt að útkoman verði fjarri núlli. Ég held ég sé ekki að rjúfa neinn trúnað þó að ég upplýsi að svona stóð þetta á þessum tíma og eðlilega. Slitaferli og uppgjör búanna voru mjög skammt komin. Mikil óvissa var um innheimtu eigna. Það átti eftir að taka afstöðu til krafna. Margar þeirra þurftu fyrir dómstóla til að fá úr því skorið hvort þær teldust gildar í búin. Þetta var í raun og veru svarthol. Það er alveg hárrétt sem hæstv. fjármálaráðherra sagði hér fyrr í umræðunni, að það tók langan tíma að brjóta þetta niður, greina þetta og fá skýra mynd af þessu.

Ég tel mig til dæmis ekki hafa fengið sæmilega skýra mynd af þessu fyrr en síðsumars og haustið 2012 þegar Sigríður Benediktsdóttir kom fyrir hönd Seðlabankans með sínar fyrstu vönduðu kynningar á greiningarvinnunni eins og hún þá stóð. Þá varð mér myndin alla vega ljósari en nokkru sinni fyrr, en alllöngu áður var ég farinn að átta mig á því að þarna væri veruleg hætta á ferðum, að um verulega skekkju væri að ræða. Til dæmis tók þó nokkurn tíma að fá á hreint hlutföll innlendra og erlendra kröfuhafa. Það var vanmat framan í þeim skilningi að menn héldu að innlendar kröfur mundu verða um 10–15% af kröfum í búin. Svo reyndust þær kannski ekki nema 5–6% að meðaltali. Það skipti miklu máli. Þeim mun hærri sem kröfuhluti innlendra aðila hefði verið, þeim mun meira hefði þá komið í þeirra hlut af hinum erlendu eignum líka og jafnað upp skekkjuna í gjaldeyri. Að hluta til er þetta svona stórt og svona snúið vegna þess hvað reyndist að lokum lítið um gildar innlendar kröfur í búin sem áttu þar með hlutdeild í hinum gríðarlega miklu erlendu eignum búanna.

Svo skýrist myndin áfram. Það er alveg rétt. Ég hef fylgst með þessu reglulega og sótt flesta fundi þar sem þetta hefur verið kynnt og nýtt uppfært mat Seðlabankans hefur komið fram. Það hefur verið að batna nánast fram til síðustu stundar, skiljanlega, líka vegna þess að hér er ekki um stöðuga einskiptisfjárhæð að ræða heldur er verið að innheimta eignir og ávaxta þær og þetta hefur tekið breytingum. Þannig er það auðvitað.

Seðlabankinn hefur hafið mikla vinnu og það var mikið lið í samstarfi við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn sem hefur auðvitað mikið af færum sérfræðingum á að skipa í þessum efnum, en það var auðvitað ekki bara verið að glíma við þetta, það þurfti líka að greina allan greiðslujöfnunarvanda þjóðarbúsins eins og hann leggur sig. Það þurfti að greina skuldir orkufyrirtækjanna, sveitarfélaganna og allra og hvaða afborganir voru fram undan þar. Menn hafa væntanlega séð í þessum skýrslum stöplaritin þar sem greiðsludreifingin er sýnd ár frá ári inn í framtíðina, að sumar súlurnar eru mjög háar, ég tala nú ekki um á meðan ekki var búið að lengja í landsbankabréfinu. Það var þessi greiðslujöfnuður í heild sinni sem þurfti að skoða og þarf enn þó að það sé að sjálfsögðu rétt þegar kemur að búunum sem slíkum að einangra þarf þann vanda og hlutleysa hann. Það er útangspunkturinn og ég er sammála þeim forsendum að hlutleysa greiðslujöfnunarvanda.

Í tíð fyrri stjórnar var líka starfandi mjög virk og gagnleg samráðsnefnd allra stjórnmálaflokka. Hún kom aftur og aftur við sögu og skipti máli í sambandi við það að það var þá oftast léttara fyrir fæti með að skapa pólitíska samstöðu um þær aðgerðir sem grípa þurfti til. Hin þverpólitíska samráðsnefnd flokkanna skrifaði öllum formönnum bréf skömmu fyrir áramót 2012 og lagði til að fjármagnshöftin yrðu gerð ótímabundin. Það var gríðarlega mikilvæg ráðstöfun. Fram að því höfðu þau verið í lögum til tveggja ára og menn veltu svo fyrir sér: Eigum við að lengja það um tvö ár, eigum við að bæta einhverju við? Niðurstaðan eftir vandaða greiningu varð: Nei, heimildin til að viðhalda þeim þarf að vera ótímabundin. Hvers vegna? Vegna þess að með því var kröfuhöfum og aflandskrónueigendum og öðrum send skilaboð: Ísland mun viðhafa hér fjármagnshöft svo lengi sem þarf. Hafið það bara á hreinu.

En mikilvægust var þó lagabreytingin 12. mars 2012 þegar eignir búanna voru færð inn fyrir höftin. Það þarf ekki að fjölyrða um það.

Að síðustu um þennan aðdraganda málsins vil ég benda fyrir á þá sem gefa lítið fyrir framgöngu fyrri ríkisstjórna í þessum efnum og vilja nú allir eigna sér heiður og gloríu, sem að sumu leyti er of snemmt, við skulum ekki taka út neina sigra í þessu fyrir fram fyrr en allt er þá búið að fara vel, fyrr en náðst hefur gríðarlegur árangur við að minnka þennan vanda með uppboðum á aflandskrónum. Einhverjir eiga nú einhverja hlutdeild í því að sú leið var farin.

Allt frá því Seðlabankinn og ríkið fóru í Avens-viðskiptin í byrjun til að bjarga heim gríðarlegum fjárhæðum í íslenskum krónum — sem bankarnir okkar blessaðir, heitnir, höfðu sett að veði úti í löndum og við náðum mjög góðu samkomulagi við Seðlabanka eða Lúxemborg og Evrópska seðlabankann um að kaupa heim þessar eignir með gríðarlegum afslætti — byrjaði snjóhengjuvandinn að minnka því að þetta voru auðvitað aflandskrónur. Og í gegnum öll uppboðin og hliðarsamninga hefur þessi aflandskrónuvandi meira en helmingast, mun meira en helmingast, vegna þess að hann stóð í 650 milljörðum kr. á þágildandi verðlagi þegar höftin komu og allt hafði hrunið. Hann er 300 milljarðar í dag á núgildandi verðlagi. Það segir sína sögu um þann árangur sem þarna hefur náðst.

Þá að þessu sem nú er á dagskrá og hlut núverandi ríkisstjórnar og til að gera langt mál stutt þá getur hún vel við unað. Ég tel að hennar vinna að þessu leyti sem birtist m.a. hér í þessum frumvörpum fái alveg ágætiseinkunn vegna þess að þetta er skynsamlegt upplegg, vel vandað, vel unnið, vel undirbyggt, enda hafa menn almennt tekið því vel. Geta þá ekki allir menn sæmilega sáttir við unað? Þurfa menn að vera hér með svívirðingar og landráðabrigsl hver í annars garð? Ég held ekki.

Mín niðurstaða er sú, herra forseti, að allar þrjár ríkisstjórnirnar sem þurftu að glíma við þetta mál á mismunandi tímum hafi í aðalatriðum gert rétta hluti. Fyrsta ríkisstjórnin, ríkisstjórn Geirs H. Haarde, gerði rétt í því að sjálfsögðu að setja neyðarlögin og setja á fjármagnshöft. Það var ekkert annað að gera. Næsta ríkisstjórn sem glímdi í tæp fjögur og hálft ár við þetta ástand hélt í aðalatriðum rétt á öllum hagsmunum Íslands. Því verður ekki á móti mælt og við gerðum það sem þurfti að gera og skipti sköpum til þess að geta svo að lokum leitt málið farsællega til lykta. Það er bara algerlega á hreinu að það var rétt gert með því að læsa eignirnar bak við fjármagnshöftin og aðrar þær aðgerðir sem ég hef hér farið yfir.

Þessi tvö frumvörp, annars vegar um stöðugleikaskatt og hins vegar um breytingu á lögum um fjármálafyrirtæki til að greiða götu fjárhagslegrar endurskipulagningar eða nauðasamninga fjármálafyrirtækjanna, eru auðvitað sumpart tæknileg. Þau eru ekkert ýkja mikil að vöxtum, en greinargerðirnar með þeim og sérstaklega öðru þeirra skipta miklu máli.

Varðandi stöðugleikaskattinn er hægt að afgreiða það með tiltölulega einföldum hætti. Þetta er nauðaeinfalt frumvarp, enda er afar einfalt að leggja á 39% skatt á heildareignir einhvers aðila. Ef hv. þm. Frosti Sigurjónsson á 100 milljónir og ég er fjármálaráðherra og segi: „Heyrðu, Frosti minn, það verður hérna 39% auðlegðarskattur á næsta ári“, þá eru það bara 39 milljónir af 100 sem maður fær í kassann. (Gripið fram í.) Í raun og veru er þetta svona. Greinargerðin með því frumvarpi er hins vegar gríðarlega mikilvæg. Það höfum við vitað að vandasamasti hluti vinnunnar væri að undirbyggja lagalega og efnahagslega það sem síðan væri lagt til í frumvarpstexta. Ég held að þar hafi verið unnin ágæt vinna.

Varðandi hins vegar frumvarpið um nauðasamningana þá eru þar eðlilega ákvæði sem hafa augljóslega mótast á grundvelli samskiptanna við kröfuhafana, samningaviðræðurnar sem ekki má kalla samningaviðræður, það blasir bara við og það er skiljanlegt og bara gagnlegt að menn hafi áttað sig á því hvernig reyna þarf að gera ferlið sem þjálast og mögulegast. Verið er að auðvelda, ja, við skulum segja ábyrgum kröfuhöfum að valda ákvörðunina, draga úr líkum á því að harðskeyttur minni hluti eyðileggi málið og svo framvegis. Og að lokum er svo Seðlabankanum heimilað í 4. gr. — að hann fær bara opna heimild í raun og veru afar óvenjulega til þess að taka við fjármunum bara á hvaða tagi sem er sem stöðugleikaframlag frá búi sem þarf að uppfylla þær kröfur sem Seðlabankinn hefur lagt niður varðandi málið.

Þá að framhaldinu og ráðstöfun þessa fjár. Kæmi til þess að hinn sérstaki stöðugleikaskattur yrði lagður á þá rynnu þeir fjármunir í ríkissjóð. Í greinargerð með frumvarpinu og reyndar í frumvarpinu sjálfu, er horfst í augu við hversu gríðarlega vandasamt það verkefni er að taka við þessu fjármagni í íslenskum krónum að uppistöðu til í okkar útþanda hagkerfi sem enn er þannig, því miður, eftir bólurnar og þensluna a.m.k. í skilningnum peningamagn í umferð. Það eru ábyrgir tónar slegnir þar. Það er talað um að byrjað verði á því að fjármagna það sem út af stæði þá vegna þess að bankaskatturinn félli niður eða öllu heldur tekjustofninn í bankaskattinum hyrfi að mestu leyti ef búin hverfa, það mætti svo sem áfram leggja hann á innlendu bankana ef menn kjósa svo. Í öðru lagi að gera upp skuldina við Seðlabankann upp á eina 145 milljarða, en fjárhæðirnar yrðu auðvitað miklum mun hærri. Og þá segja menn, og það er vel, að halda verði þessum fjármunum aðgreindum frá öðrum tekjum ríkissjóðs, leggja þær á sérstakan reikning og hafa Seðlabankann með í ráðum um hvernig með verði farið, leita væntanlega leiða til þess að reyna að greiða niður skuldir ríkisins, en þó þannig að það valdi ekki þenslu í sjálfu sér.

Vandinn er sá að hér er um óhemjulegar fjárhæðir að ræða, hundruð og aftur hundruð milljarða króna, sem legið hafa óvirkar í hagkerfinu. Þær hafa ekki verið í umferð. Hagstjórnarverkefnið er að takast á við það hvernig við förum með það ef þær skipta um hendur, að þær fari ekki í umferð, að þær valdi ekki þenslu, þær valdi ekki verðbólgu og óviðráðanlegum eftirköstum.

Allt bendir til að niðurstaðan verði sú að þegar sé afráðið og hafi að mestu leyti verið afráðið fyrir fjölmiðlasjóið mikla í Hörpunni að búin velji að fara leið nauðasamninga og greiði þau stöðugleikaframlög sem til þarf til þess að Seðlabankinn gefi þeim grænt ljós. Þannig er um þetta búið að í reynd er valdið tekið af dómstólunum til að samþykkja nauðasamninga eða það er skilyrt þannig að ef ekki fylgir með vottorð frá Seðlabankanum upp á að samningurinn sé í lagi, ber héraðsdómara að hafna honum þannig að neitunarvaldið er hjá Seðlabankanum og það er vel. Seðlabankinn getur þar af leiðandi væntanlega notað tímann til þess að styrkja, ef eitthvað er, enn frekar kröfurnar og viðmiðin sem hann setur sér áður en hann gefur endanlega af eða á samþykki eða synjar einhverjum frumvörpum að nauðasamningum. Þá munu hins vegar þeir fjármunir, ef ég skil þetta rétt, að uppistöðu til renna í Seðlabankann.

Ágætt væri ef hæstv. fjármálaráðherra fjallaði um það vegna þess að þá er ekkert sagt í sjálfu sér um meðferð fjármunanna. Þá verða þeir fjármunir í Seðlabankanum og Seðlabankinn mun væntanlega ekki samþykkja svo létt einhverja óráðsíuráðstöfun á þeim. En það er athyglisvert ef við berum saman frumvörpin tvö, hið fyrra og þykka um stöðugleikaskattinn, sem er reyndar nú aftar í tímaröðinni ef út í það er farið, ef við tökum kostnaðarumsögn fjármálaráðuneytisins, sem er ítarleg og mikil, og greinargerðina og reyndar frumvarpstextann sjálfan þar sem mælt er fyrir um hvernig fara skuli með menntafé, og svo hitt frumvarpið um nauðasamningaleiðina, þá er ekkert sagt. Það er í raun og veru bara sagt að Seðlabankinn megi taka við hvers kyns greiðslum í lausu, skuldabréfum, tryggingum, eignarhlutum eða hvað það nú er til þess að auðvelda einhverjum aðila að ná nauðasamningum, uppfylla markmiðin. Þeir hafa nú ekki eytt miklu púðri í kostnaðarumsögnina með því frumvarpi. Hún er tæp hálf blaðsíða og þar er komist að þeirri undarlegu niðurstöðu að ekki verði séð að lögfesting þess hafi bein áhrif á fjárhag ríkissjóðs. Ég var nú svolitla stund að melta þetta. Já, auðvitað ekki í þeim skilningi að ríkissjóður þurfi að kosta einhverju til eða lendi beint í útgjöldum eða þannig, en ég hélt nú að það væri kannski meiningin að menn nytu góðs af þessum gríðarlegu fjárhæðum þó að þær rynnu inn í Seðlabankann en ekki beint í ríkissjóð nema þá ef til vill að einhverju litlu leyti.

Hæstv. fjármálaráðherra hefur sagt að þetta gætu verið fjárhæðir af stærðargráðunni 400–500 milljarðar kr. ef öll stóru búin þrjú veldu að fara nauðasamningaleið á ýmsu formi og fleira sem tengt sem væri að sjálfsögðu hagstætt eins og að binda hér fjármuni til fjárfestingar í landinu o.s.frv. En þá vakna ýmsar spurningar sem erfitt er fyrir okkur sem ekki erum innvígð í þetta algerlega. Það er um þetta bil, það er m.a. um hversu raunhæft matið er. Það er augljóslega ekki hægt að slá einni tölu á það hver verður heildarniðurstaðan af nauðasamningaleið hjá öllum búunum eins og hægt er að slá á stöðugleikaskattinn og vegna þess að þetta er á mismunandi formi og þetta eru uppsópsákvæði og þetta eru að einhverju leyti hlutir sem kæmu til sögunnar á ákveðnu árabili eftir að nauðasamningarnir færu í gegn. Það er greiðsla beins framlags. Það er endurfjármögnun lána. Það gæti verið skilyrt skuldabréf, afkomuskiptasamningar, hlutdeild í hagnaði bankanna, innlánum breytt í skuldabréf og framsal krafna. Sala bankanna kæmi þá þarna líka við sögu þar sem ríkið fengi vaxandi hlutdeild í söluandvirðinu eftir því sem það yrði hærra.

Þess vegna held ég að úr því ekki var eytt neinu púðri í þetta á kynningunni í Hörpu heldur sýndar 59 eða 70 glærur, sem voru meira og minna allar endurtekning á því sama, um hetjuskapinn sem fólginn var í stöðugleikaskattinum, en ein glæra svona neðanmáls vakti athygli á því að stóru kröfuhafarnir hefðu nú reyndar fallist á stöðugleikaskilyrði Seðlabankans og það stefndi í þá leið — hefði nefnilega verið fínt að fá eins og hálfs, tveggja klukkutíma góða kynningu á þeirri greiningarvinnu sem liggur að baki stöðugleikaskilmálunum. Þeir eru væntanlega stóra málið í þessu nú í framhaldinu miðað við í hvað stefnir. Seðlabankinn er afar fáorður um það í tilkynningu sinni á heimasíðunni. Auðvitað veit ég að hæstv. fjármálaráðherra hefur vinsamlega upplýst mig um að það liggi gögn þar á bak við, miklu ítarlegri vinnuskjöl, en það er auðvitað afar almennur rammi sem nú er birtur opinberlega um þessi gríðarlega mikilvægu viðmið sem Seðlabankinn hefur sett og unnið í sambandi við hvað þurfi til að búin hvert um sig og öll saman uppfylli stöðugleikaskilyrði.

Varðandi ráðstöfun fjármunanna að öðru leyti fannst mér það fara vel af stað, en ég varð hryggur þegar ég las forsíðu Morgunblaðsins í dag. Ég varð mjög hryggur yfir því að fjármálaráðherra skyldi ekki halda lengur út en í tvo sólarhringa og fara þá að boða skattalækkanir, að vísu með fyrirvara um rétta tímasetningu. Af hverju er maður svo óendanlega hryggur þegar maður sér svona lagað? Jú, vegna þess að þetta er u.þ.b. það vitlausasta sem hægt er að segja við þessar aðstæður þegar við sjáum hagkerfið fara úr slaka í stöðugt ástand og síðan í þenslu daginn sem Seðlabankinn hækkar vextina um 50 punkta og boðar grimmar vaxtahækkanir fram undan, þá kemur fjármálaráðherra íslenska ríkisins og boðar skattalækkanir. Man nokkur eftir þessu? Hefur þetta gerst áður?

Það er rétt hjá hæstv. fjármálaráðherra Bjarna Benediktssyni að því miður lofuðu að minnsta kosti þrír stjórnmálaflokkar glórulausum skattalækkunum fyrir kosningar 2003. Það brast á loforðafyllerí. Ég man þetta mjög vel því að ég stóð einn gegn því í kappræðuþáttum formanna og annars staðar. Ég bað menn í guðs bænum að fara ekki út í svona óráð að fara að yfirbjóða hver annan í skattalækkunarloforðum þegar ljóst var að það var ekki það sem íslenska hagkerfið þurfti á að halda. Og eftir á viðurkenna allir hversu óskaplega skaðlegt það var ofan í hinar miklu stóriðjufjárfestingar sem búið var að ákveða að troða nánast með handafli inn í hagkerfið, þaninn fasteignamarkað og fjármálamarkað sem var að fara úr böndunum. Jafnvel þó að hæstv. fjármálaráðherra hafi þessa skoðun þá er bara það eitt að nefna þetta inn í þetta andrúmsloft svo undarlegt burt séð frá pólitískum ágreiningi. Af hverju að senda þessi skilaboð? Er það jákvætt fyrir Seðlabankann? Ætli Seðlabankinn hafi ekki orðið voðalega glaður? Þeir voru að undirbúa tilkynningu á ákvörðun peningastefnunefndar. Hvað segir þar? Það segir meðal annars, með leyfi forseta:

„Til þess að liðka fyrir kjarasamningum hefur ríkisstjórnin kynnt aðgerðir sem munu auka ríkisútgjöld og draga úr skatttekjum. Aðgerðirnar hafa enn sem komið er ekki verið fjármagnaðar og fela því að öðru óbreyttu í sér slökun á aðhaldi í ríkisfjármálum. Einnig hafa verið kynntar aðgerðir stjórnvalda er miða að því að búa í haginn fyrir losun fjármagnshafta. Sumar þeirra munu afla ríkissjóði tekna sem mikilvægt er að verði ráðstafað þannig að það verði ekki til þess að auka enn frekar á spennu í þjóðarbúskapnum með því að virkja peningamagn sem til þessa hefur verið óvirkt. Peningastefnunefndin mun fylgjast grannt með framvindunni og grípa til viðeigandi aðgerða til mótvægis ef þörf krefur.“

Í útvarpsfréttunum í hádeginu sagði seðlabankastjóri: „Það þarf kraftaverk í sumar til þess að ekki verði verulegar frekari vaxtahækkanir í ágúst.“ Og þær verða.

Það er boðað hér í yfirlýsingu peningastefnunefndar: Enn fremur virðist einsýnt að hækka þurfi vexti umtalsvert í ágúst og frekar á komandi missirum, eigi að tryggja stöðugt verðlag til lengri tíma litið.

Þetta eru aðstæðurnar. Þetta eru viðfangsefnin í hagstjórninni og þá er ekki rétti tíminn til að fara að boða skattalækkanir. Það er auðvitað líka ástæða til að nefna hér hættuna á því að innstreymi, vaxtamunarviðskiptin gætu gert vart við sig á nýjan leik. Nú er það vissulega þannig, eins og ég kom að í mínu máli í byrjun, að það er ekki meiningin að afnema fjármagnshöft að fullu. Það er gott að menn horfist í augu við það og meira að segja fjármálaráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, sem er sjálfsagt ekkert mjög ljúft að viðurkenna að það verða áfram takmarkanir í formi lagalegra ráðstafana í formi hugsanlegra hraðatakmarkana á það hvað lífeyrissjóðir og aðrir stofnanafjárfestar geta farið hratt út o.s.frv.

En það er skynsamlegt að halda því til haga vegna þess að hagstjórnarverkefnin fram undan eru augljóslega að hafa stjórn á væntingum og verjast því að hlutirnir fari hér úr böndunum, að verðbólga og óstöðugleiki láti ekki verulega til sín taka hér á næstu mánuðum og það er líka mikilvægt út af þessu verkefni vegna þess að við þær aðstæður verður erfiðara að rýmka fjármagnshöftin. Þá verður minni tiltrú á framtíðinni í íslenska hagkerfinu og því sem við megum náttúrlega aldrei gleyma, að aftan við þetta allt saman eru Íslendingar sjálfir, íslenskur almenningur, íslensk fyrirtæki, íslenskir lífeyrissjóðir, sem þurfa líka að spila með ef vel á að til takast þannig að ekki bresti hér á einhver fjármagnsflótti.

Menn hafa nefnt að gangi þetta nú allt vel og þegar þessir gríðarlega mörgu milljarðar komi til ríkisins og/eða inn í Seðlabankann geti bara staða íslenska ríkisins orðið næstum því jafngóð og hún var fyrir hrun í skuldahlutföllum mælt. Já, það kann vel að vera að hún nálgist það innan fárra ára, fari niður í 30, 35 af hundraði, ég efast nú um 25 eins og hún var, en tjónið af hruninu hefur ekki þar með verið bætt. (Forseti hringir.) Það er óravegur frá því. Þó að ríkissjóður kunni að komast innan einhverra ára í svipað stand hvað varðar skuldahlutföll mun því miður áfram (Forseti hringir.) sitja eftir ómælt, óbeint og beint tjón af hruninu sem við erum þegar að miklu leyti búin að bera.