144. löggjafarþing — 126. fundur,  10. júní 2015.

stöðugleikaskattur.

786. mál
[18:58]
Horfa

Brynhildur Pétursdóttir (Bf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er eflaust eitt og annað í þessum frumvörpum sem mun koma betur í ljós við umfjöllun nefndarinnar. Við höfum líka verið að benda á það og margir hér að það þarf að passa sig varðandi þá peninga sem munu safnast fyrir á bók í Seðlabankanum. Þótt mér heyrist nú á bæði hæstv. fjármálaráðherra og hæstv. forsætisráðherra að þeir hafi skilning á því að þá peninga megi ekki setja út í hagkerfið þá þarf að stíga varlega til jarðar og það er kannski eitthvað sem þarf að hnykkja betur á í vinnu nefndarinnar að það sé alveg á hreinu að þessir peningar verði ekki notaðir í að fjármagna kosningaloforð 2017.