144. löggjafarþing — 127. fundur,  11. júní 2015.

stöðugleikaskattur.

786. mál
[11:41]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Herra forseti. Ég hef sennilega gengið allt of langt í því að hrósa hæstv. fjármálaráðherra. Mér sýnist margt benda til þess að það hrós hafi stigið honum til höfuðs en ég er, eins og í gær, glaður yfir þessu máli og segi bara eins og ég sagði í gær að endalok, a.m.k. þessa parts afnáms gjaldeyrishafta, hafa létt af mér þungu fargi. Ég vil ekkert láta spilla gleði minni, en samt verð ég að segja að það eru tvö atriði sem ég þarf að segja við hæstv. ráðherra áður en hann skeiðar hugsanlega héðan í burtu. Hæstv. ráðherra er ekki búinn að sitja hér nógu lengi til að muna eða þekkja það að skömmu eftir að ég settist á þing gerðist það að ég brást til varnar fyrrverandi forsætisráðherra Bretlands, Margréti Thatcher. Hún sætti hér þungum ákúrum og ég gerði uppskátt um það að ýmislegt hefði hún gert gott, m.a. sett upp kerfi fyrir erlenda námsmenn sem hefði leitt til þess að ég gat stundað háskólanám í Bretlandi ókeypis. Það leiddi til harðra orðaskipta. Núverandi forseti lýðveldisins notaði tækifærið til þess að ganga hér á mig nánast með skóflum og járnum og kallaði mig einn af, með leyfi forseta, „Maggie's boys“ sem fram eftir þarsíðasta áratug var skammaryrði í þessum sölum. Þeirri ágætu konu var ýmislegt til lista lagt og hún var mikill stjórnmálamaður þó að ég hafi sannarlega ekki verið sammála skoðunum hennar frekar en ýmsum pólitískum skoðunum hæstv. ráðherra. Og þó að ég vilji ekki verða til þess að spilla gleði hæstv. ráðherra er ég þeirrar skoðunar að það hafi verið óvarlegt af honum og úr takti við aðra háttsemi hans í tengslum við þann gjörning sem við erum að ræða að hefja hér snemma ferilsins umræðu um það með hvaða hætti hann ætlaði að verja því svigrúmi sem skapaðist í fjárlögum vegna minni vaxtagjalda. Ég tel það óheppilegt við þessar aðstæður. Hæstv. ráðherra hefur sagt að hér sé hagvöxtur í góðum gangi, fylgi sama ferli og dregið var upp af AGS og íslensku ríkisstjórninni 2010, nákvæmlega sama ferli, og það er lofsvert að þremur ríkisstjórnum hefur tekist að halda því og hagvöxtur er jafn góður og hann er í dag. Þar að auki blasa við stór verkefni á næstu árum, verkefni sem hv. þm. Jón Gunnarsson hefur þakkað fyrrverandi ríkisstjórn. Það er auðvitað alveg eins og þessi, margir sem þar koma að, þannig að ég held að eitt af verkefnum hæstv. ráðherra ásamt Seðlabankanum á næstu missirum verði að setja lokið á þessa tunnu og reyna að halda hagkerfinu í þannig horfi að það ofhitni ekki. Það er það sem seðlabankastjóri er að reyna að gera með bæði vaxtaákvörðun bankans í gær og einhverjum sterkustu yfirlýsingum um fyrirhugaðar vaxtahækkanir sem ég man eftir. Þá finnst mér skjóta skökku við að hæstv. fjármálaráðherra komi á sama degi og skapi væntingar sem ýta undir eyðslu hjá fólki með því að tala um skattalækkanir í framtíðinni. Reynslan sýnir að orðalag af því tagi ýtir undir neyslu, menn eyða út á væntingar. Að öðru leyti ætla ég ekki að segja neitt frekar um það.

Mín afstaða til þessara mála hefur komið fram. Ég styð þau mál sem við ræðum hér. Ég rifja það upp fyrir ýmsum hv. þingmönnum í þessum sal að samstundis og á sama degi og gert var uppskátt um það á flokksþingi Framsóknarflokksins að þetta væri fram undan steig ég fram í fjölmiðlum og lýsti því sem minni skoðun að minn flokkur og þeir flokkar sem mynduðu síðustu ríkisstjórn ættu að styðja þetta. Ég sló auðvitað þann varnagla að umbúnaður málsins yrði viðunandi. Ég hef náttúrlega ekki haft tök á því að skoða þetta flókna mál til hlítar eða fara í gegnum greinargerðina með þeim hagfræðilegu röntgenaugum sem menn þurfa til þess að komast kannski að þokkalegri niðurstöðu. Til þess eru nefndir þingsins. Það sem ég hef þó gert og skoðað og numið af umræðum hér, hlustað bæði á hæstv. fjármálaráðherra sem ég sagði hér í gær að hefði haldið afskaplega góða ræðu, hlustað á seðlabankastjóra líka, leiðir mig allt að þeirri niðurstöðu að hér sé hugsað fyrir flestu því sem upp gæti komið. Mér þykir ákaflega vandað til þessa umbúnaðar.

Ég vil sérstaklega við þessi vatnaskil í þessu ferli þakka þeim sem að komu, starfsmönnum fjármálaráðuneytisins sem hafa allar götur frá 2009 unnið mjög dyggilega að þessu verkefni. Ég hika ekki við að þakka hæstv. fjármálaráðherra sem ég hef áður gert. Ég tel að atbeini hans hafi skipt mjög miklu máli vegna þess að hann sá að minnsta kosti til þess að menn fóru ekki út af þessu spori. Það þurfti viljaþrek til þess. Við vitum að síðustu missiri hafa verið uppi sterk öfl í samfélaginu, sterk öfl innan stjórnarflokkanna, innan ríkisstjórnarinnar, sem vildu fara aðra leið. Það ber að þakka Sjálfstæðisflokknum að sú leið var ekki farin. Það er þakkarvirði að segja að þessi leið skilar miklu áhættuminna umhverfi fyrir íslenskt samfélag en ef gjaldþrotaleiðin hefði verið farin. Það getur vel verið að gjaldþrotaleiðin hefði skilað töluverðu fyrir íslenskt samfélag og hugsanlega meiri ávinningi í krónum talið en þó ekki miðað við þær forsendur sem hæstv. fjármálaráðherra sagði í gær að yrði að fullnægja. Þær eru þær að það svigrúm sem skapast vegna þessa gjörnings sé fyrst og fremst til þess að halda fjármálalegum stöðugleika á Íslandi. Ég skildi hæstv. fjármálaráðherra þannig að umfram það væri ekki hægt að ganga, það væri ekki hægt að líta á slitabúin sem einhvern sérstakan skattstofn til þess að hafa af tekjur. Þannig hef ég skilið þetta mál og ég er sammála því.

Ég tel sem sagt að ef menn hefðu farið hina leiðina hefði verið hætta á miklum málaferlum sem hefðu hugsanlega leitt okkur inn á braut Argentínu. Við vitum alveg hvað það var erfið för. Þetta skiptir allt saman máli.

Ef maður horfir yfir söguna er ég sammála þeirri yfirferð sem kom fram hjá hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni í gær. Allir þeir sem hafa lagt hönd að þessu verki hafa gert það með það eitt í huga að koma hag þjóðarinnar sem best fyrir. Það var undirstaða þeirrar vinnu sem hófst 2009 þegar drög að áætlun um afnám gjaldeyrishafta leit dagsins ljós, sömuleiðis þeirri áætlun sem náði miklu lengra sem menn hafa í megindráttum fylgt frá því á árinu 2011. Það var áætlun sem var unnin í samvinnu þriggja eininga, AGS, Seðlabankans og fjármálaráðuneytisins, bara svo það liggi algjörlega skýrt fyrir. Á okkar tímum má segja að við höfum skipt þessu verkefni í tvennt, annars vegar að ná niður aflandskrónunum. Gleymum því ekki að þau voru á þeim tíma jafn mikill váboði og krónueign slitabúanna er í dag. Þau voru líkast til jöklabréfin sem hingað höfðu færst og flust, í krafti gengismunaviðskipta voru ef ég man rétt 750 milljarðar. Það var ýmislegt annað sem líka þurfti að horfa til eins og afborganir sem íslensk fyrirtæki og sveitarfélög þurftu að greiða. Þetta var tvennt, það var krónueign slitabúanna og það voru aflandskrónurnar. Þá strax var farin sú leið sem enn er í gangi, að nudda niður aflandskrónunum í gegnum útboð. Það hefur skilað því að í dag hefur þessi stabbi farið úr 750 milljörðum niður í 300 milljarða. Það skiptir auðvitað máli hvers eðlis þessar krónur eru sem núna eru inni í Seðlabankanum í formi hinna gömlu jöklabréfa. Þær eru ekki jafn kvikar og þær sem farnar eru í gegnum útboðin. Það er búið að leiða í jörð og losa út krónurnar sem mest hættan stafaði af í þeim hópi. Ég tel ekkert strok í þeim krónum sem eftir eru. Við eigum eftir að sjá með hvaða hætti eigendur þeirra bréfa taka örlögum sínum, en þá strax voru líka settar fram áætlanir um það á tilteknum tímapunkti þegar búið væri að stugga brottu þeim sem væru strokgjarnastar að reyna að koma þeim sem eftir væru yfir í langa gjaldeyrispappíra. Ég fæ ekki betur séð en að það sé partur af þessu plani. Sömuleiðis var þá hugsað um tvennt að því er varðaði þá sem þá væru eftir, annars vegar að koma þeim fyrir með einhverjum hætti á lágum eða engum vöxtum, læstum inni í Seðlabankanum, eða leyfa þeim að fara út á mjög háum útgöngusköttum. Það var margsinnis rætt af hálfu sendinefnda AGS, áreiðanlega margoft við fyrrverandi fjármálaráðherra, sannarlega margoft við mig sem utanríkisráðherra á þeim tíma.

Ég fæ ekki betur séð en að um þetta sé samhljómur millum fyrri ríkisstjórna og þeirrar sem nú situr. Ég lít ekki svo á að þessar krónur séu í dag mjög stór vandi. Eftir er sá stóri vandi sem er krónueign slitabúanna sem í dag er samtals 900 milljarðar, að því er ég hygg.

Það er alveg hárrétt sem hæstv. fjármálaráðherra sagði hér í gær, þegar hann steig inn í sitt ráðuneyti tók hann ekki við útfærðri eða, eins og hann orðaði það svo ég vísi beint til orða hans, fullunninni áætlun. Áætlunin var hins vegar fyrir hendi. Ýmsar sviðsmyndir voru þá teiknaðar upp. Hv. þm. Katrín Júlíusdóttir nefndi nokkrar hér. Af því að hv. þm. Karl Garðarsson sagði að ráðist hefði verið á Framsóknarflokkinn fyrir að tala um svipur og gulrætur á sínum tíma vísa ég því algjörlega til föðurhúsanna. Þetta var orðalag sem bókstaflega var notað af til dæmis fyrrverandi fjármálaráðherra, Katrínu Júlíusdóttur. Menn gerðu sér algjörlega grein fyrir því með hvaða hætti þyrfti að klípa kröfuhafana til að þeir hreyfðu sig.

Þá er rétt að rifja það upp sem ég tel að hafi skipt ákaflega miklu máli og það var sá gjörningur sem Alþingi réðst í fyrir atbeina framkvæmdarvaldsins 12. mars 2012 þegar komið var í gegnum þing eftir lokun markaða og á einni nóttu þeim umræðum um frumvarpið sem breytti gjaldeyrislögum með þeim hætti að allar gjaldeyriseignir slitabúanna voru læstar innan efnahagslögsögu hvar sem þær voru ella niður komnar. Þetta var járnkarlinn. Þetta var kylfan sem hægt var síðan að tegla til þess að stugga við þeim eða eftir atvikum var þarna lagður kjölur að hlaupi í haglabyssuna eins og einn hv. þingmaður sagði að nýta ætti. — Mér þykir leitt ef þessi ræða mín verður til þess að hv. þingmenn sofni undir henni í salnum, henni er ekki löngu lokið.

Sú ríkisstjórn var að velta fyrir sér sviðsmyndum. Ein þeirra og sú eina sem var lyft opinberlega af Má Guðmundssyni seðlabankastjóra á fundi sem mig minnir að vefmiðillinn Eyjan og snjohengjan.is sem hópur manna stóð fyrir — út á hvað gekk hún? Grundvöllur hennar var að rakað yrði af krónueign slitabúanna 85%. Það var talin forsenda þess að hægt væri að ráðast í afnám gjaldeyrishaftanna. Hitt er svo algjörlega rétt hjá hæstv. fjármálaráðherra að það var með töluvert öðrum hætti sem menn ætluðu að gera það, ekki eins útfærðum og gerði meðal annars ráð fyrir ákveðnu samstarfi millum eignarhaldsfélags Seðlabankans og lífeyrissjóðanna. Menn vissu það. Bankarnir áttu samkvæmt því módeli að færast yfir á hendur íslenska ríkisins og síðan verða afsettir á markaði, lífeyrissjóðirnir áttu að koma að því og þeir áttu að hagnast á því. Ég var alltaf þeirrar skoðunar og talsmaður þess að þeir mættu hagnast á því. Hvers vegna? Vegna þess að það er félagslegt kapítal sem við eigum öll. Ég var þeirrar skoðunar í þeirri stöðu sem lífeyrissjóðirnir voru þá. Þá var talið að þeir hefðu tapað gríðarlegu fjármagni og það mætti ýta undir það með þessum hætti.

Ég var líka þeirrar skoðunar og þar kemur Framsóknarflokkurinn til sögunnar að þegar leið fram undir lok fyrsta þriðjungs 2013 væru að skapast mjög góð skilyrði til að ná samningum við kröfuhafana. Það var að töluverðu leyti, eins og ég hef sagt opinberlega, Framsóknarflokknum að þakka. Hann gekk fram af slíkri hörku í kosningabaráttunni að það, ásamt því hvernig sú kosningabarátta snerist að verulegu leyti um leiðir til að ná fram uppgjöri við kröfuhafana, leiddi til þess að þeir fengu skjálfta í hnén. Ég taldi af þeim samtölum sem ég átti að þá væru hugsanlega að skapast skilyrði til að semja við þá. En það voru auðvitað mjög erfið pólitísk skilyrði. Það voru að koma kosningar. Þessu var samt lyft sem möguleika af þáverandi fjármálaráðherra, núverandi hv. þm. Katrínu Júlíusdóttur, bæði minnir mig í ræðu hennar á ársfundi Seðlabankans en þó ekki síður í viðtali við Viðskiptablaðið þar sem hún bókstaflega nefndi þennan möguleika og sagði jafnframt með hvaða hætti sú ríkisstjórn teldi einungis hægt að verja því hugsanlega svigrúmi sem til yrði til þess að lækka skuldir ríkisins. Það kemur fram. Það var alveg skýr forsenda þess sem við vorum að hugsa þá.

Ég geri mér vel grein fyrir því að við þessar aðstæður þegar fram undan eru alþingiskosningar er erfitt að ná pólitískri samstöðu um slíkan gerning. Það var ekki hægt að ráðast í hann með öðrum hætti. Það var skotið niður, Framsóknarflokkurinn gerði það með frægri grein þáverandi og núverandi varaformanns, hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra Sigurðar Inga Jóhannssonar, sem taldi það ekki koma til greina. Formaður Framsóknarflokksins, núverandi hæstv. forsætisráðherra, tók afdráttarlaust í sama streng á heimasíðu sinni. Gott og vel, það breytir engu um það að þegar stjórnarskipti urðu hefði verið hægt að halda þessu áfram.

Árið 2013 voru nefnilega að skapast skilyrðin fyrir því augnabliki þar sem hægt var að láta ríða af þetta eina skot sem seðlabankastjóri sagði að Íslendingar ættu í byssunni. Undir lok ársins 2013 fóru að skapast skilyrðin sem enn þá eru fyrir hendi þó að þau fari dvínandi til að gera þetta. Þessi skilyrði voru næsta skýr. Hér á Íslandi voru háir vextir meðan þeir fóru ört lækkandi erlendis og leiddu að lokum niður í 0 í sumum löndum. Jafnvel voru dæmi um neikvæða vexti í nágrannalöndum. Sá vaxtamunur sem varð milli Íslands og útlanda dró að sjálfsögðu úr flóttavilja krónunnar. Hann hamlaði því frekar að fjármagn mundi við afnám haftanna leita út úr landinu. Önnur þróun var líka í gangi þá, munurinn á hagvaxtarþróun hér heima og erlendis.

Á Íslandi hefur verið hagvöxtur allar götur síðan á miðju ári 2010. Þeir sem spá í gang hinna fjárhagslegu himintungla sáu að áætlun AGS hafði gengið eftir nánast upp á punkt og prik. Árið 2010 var spáð tilteknum hagvexti allt fram til ársins 2017, held ég að hafi verið, og það hefur allt saman gengið eftir. Á sama tíma var hins vegar hagvöxtur mjög dvínandi í Evrópu og sömuleiðis í Bandaríkjunum. Við slíkar aðstæður, þegar vaxtamunurinn er Íslandi í vil og er mikill og þegar munurinn á hagvexti heima og erlendis er mikill, skapast bestu skilyrðin til að afnema gjaldeyrishöftin. Þá er tímabilið til að taka upp framhlaðning Seðlabankans og láta skotið ríða af. Þetta sagði Seðlabankinn nánast með þessum orðum í þarsíðustu skýrslu sinni um fjármálalegan stöðugleika. Þá er bókstaflega verið að setja fram mjög sterk skilaboð til íslensku ríkisstjórnarinnar: Nú á að ráðast í þetta. Menn virtust taka seint undir það og þá var teflt fram einum af framkvæmdastjórum Seðlabankans sem hreinlega stafaði þetta ofan í Alþingi, framkvæmdarvaldið og þjóðina. Sigríður Benediktsdóttir orðaði þetta bókstaflega svo að nú væri dauðafæri — en menn voru ekki tilbúnir.

Innan ríkisstjórnarinnar var sú staða uppi að það var ágreiningur um leiðir, ágreiningur um hvort ætti að fara samningaleiðina eða gjaldþrotaleiðina. Sá ágreiningur leiddi meðal annars til þess eins og hæstv. fjármálaráðherra sagði hér í gær að það var tekinn tími til að fara í djúpa úttekt á gjaldþrotaleiðinni. Hæstv. fjármálaráðherra skýrði okkur frá því að það hefði tekið ár með öðru að gera þá úttekt. En sú ákvörðun var ekki tekin af hálfu ríkisstjórnarinnar að fara þá leið og notfæra sér þau prýðilegu skilyrði fyrri heldur en í október eða nóvember á síðasta ári þegar féll hæstaréttardómur í óskyldu máli sem í grundvallaratriðum komst að þeirri niðurstöðu að skiptastjóri í þrotabúi hefði vald til þess að greiða út úr búinu í gjaldeyri ef gjaldeyrir væri fyrir hendi. Það er jafnframt þannig að ekkert framkvæmdarvald eða enginn getur skipað skiptastjóra ef hann vill gera þetta. Þetta varð til þess að það rann endanlega upp fyrir mönnum að tæknilega væri ekki hægt að fara gjaldþrotaleiðina. Þess vegna einhentu menn sér að lokum í að fara samningaleiðina sem hæstv. fjármálaráðherra hafði góðu heilli undirbúið vel, en þetta tók tíma. Þessi töf kostaði eitthvað.

Hvað kostar ár undir fjármagnshöftum? Viðskiptaráð sló á það fyrir rösku ári og frá því var greint í fjölmiðlum. Það kostar 80 milljarða. Fyrir skömmu var gefin út skýrsla sem Ásgeir Jónsson og Hersir Sigurgeirsson skrifuðu og þeir komust að þeirri niðurstöðu að átök innan ríkisstjórnarinnar, átök hæstv. fjármálaráðherra við hæstv. forsætisráðherra, um gjaldþrotaleiðina hefðu tafið ferlið um heilt ár. Í úttekt sem Benedikt Jóhannesson, ritstjóri Vísbendingar, gerði og greindi frá hér á dögunum var sama niðurstaða. Sérfræðingar utan frá sem hafa skoðað þetta mál komast hver um annan þveran að þeirri niðurstöðu að ferlið sem leiðir að afnámi gjaldeyrishafta hafi tafist um heilt ár vegna þessara átaka. Ég er þeirrar skoðunar að það sé hægt að færa rök fyrir því að það hafi tafist um eitt til eitt og hálft ár. Þá getum við séð að þessi átök og þessi vitleysisgangur í kringum gjaldþrotaleiðina hafi kostað íslenskt samfélag 80–120 milljarða. Dýr mundi Hafliði allur.

Þegar dregur að lokum ræðu minnar vil ég segja að grunnurinn undir þessu verki öllu saman er vitaskuld sú efnahagslega uppbygging sem Ísland hefur farsællega gengið í gegnum á síðustu árum. Þar hafa allar þær ríkisstjórnir sem setið hafa lagt gjörva hönd að verki. Þessi ríkisstjórn hefur gert margt gott í þeim efnum. Hún hefur fylgt þeirri áætlun sem AGS lagði alveg eins og fyrri ríkisstjórn gerði í reynd. Þegar menn fara núna yfir stöðuna finnst mér tvennt blasa við, að einn stjórnmálaflokkur hefur gengið mjög hart fram í því að ásaka aðra um að ganga erinda erlendra hagsmunahópa, hrægammasjóða, gegn íslenskum hagsmunum. Það er hart að sitja undir því. Mér hefur fundist það ákaflega erfitt. Hér hafa allir gengið fram eins vel og hægt er. Það hefur enginn þurft að sæta ákúrum jafn harkalega og hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon. Ofan á það sem við hin höfum þurft að sitja undir af hálfu hæstv. forsætisráðherra og ýmissa pótintáta hans hefur hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon á síðustu dögum og vikum þurft að sitja undir sérstökum pústrum um að hann hafi með rangindum fært erlendum kröfuhöfum íslenska banka og að það hafi kostað Íslendinga gríðarleg fjárútlát.

Eitt af því sem blasir við núna, þegar maður les hin svokölluðu erindi sem er hægt að finna á heimasíðu fjármálaráðuneytisins og þegar maður fer yfir greinargerð þess frumvarps sem við erum hér að ræða og þegar maður reynir að röntgenlýsa þær upplýsingar sem ríkisstjórnin sjálf hefur lagt fram, er að sú ákvörðun sem var tekin um bankana á sínum tíma var besta ákvörðunin. Þau fjárframlög sem íslenska ríkið innti þá af höndum skila sér öll til baka og miklu meira en það. Eitt af því sem er gleðilegt við þessa niðurstöðu, sem er hin sama og við vorum búin að segja áður sem í þeim skítmokstri stóðum, er að sem betur fer mun allur sá kostnaður endurheimtast, sýnist mér, sem íslenska ríkið þurfti að leggja út við endurreisn efnahagslífsins. Það þýðir að sjálfsögðu ekki að heimilin, einstaklingarnir og fyrirtækin sem sum þurftu að bera þunga bagga fái allt sitt bætt. En að minnsta kosti skiptir það máli fyrir okkur sem sátum undir ásökunum um að hafa tekið rangar ákvarðanir og sólundað fé íslenskra skattborgara við þessa uppbyggingu að hver einasta króna kemur til baka. Það eru mikil tíðindi fyrir að minnsta kosti mig, herra forseti.

Ég vil að lokum míns máls segja að nú er lokið einum áfanga. Sjö ára ferli er lokið. Það sem við erum að vinna hérna núna er þó einungis upptakturinn að sjálfu afnámi gjaldeyrishaftanna. Nú tekur við annað sex til sjö ára ferli áður en hægt er að segja að gjaldeyrishöftunum í núverandi mynd hafi verið hrundið. Ég vísa til þess að sá sem virðist hafa verið aðalarkitekinn á bak við þetta, hinn gamalkunni samningamaður fyrri ríkisstjórnar sem núverandi ríkisstjórn tók í arf, Lee Buchheit, sagði á RÚV fyrir tveimur dögum: Þetta er bara fyrsti parturinn, síðan tekur við sex til sjö ára ferli til að afnema höftin.

Ég óttast að þrátt fyrir allt þegar þetta er farsællega afstaðið og við búum ekki lengur við þá ógn gagnvart stöðugleikanum sem krónueign slitabúanna er komi eigi að síður í ljós að það frelsi til að flytja fjármagn á milli landa sem margir vænta að fylgi í kjölfarið verði ekki jafn ríkt og menn hafa teiknað upp. Eftir sem áður munum við búa við höft. Þau verða í öðru formi en ég held að því megi slá föstu að þegar því langvinna ferli lýkur sem er fram undan muni eigi að síður blasa við að íslenska krónan er enn veik og erfið og er í höftum, öðruvísi höftum.