144. löggjafarþing — 127. fundur,  11. júní 2015.

stöðugleikaskattur.

786. mál
[12:14]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P) (andsvar):

Herra forseti. Þetta er nefnilega svo mikilvægt. Ég held að ég sé sammála hv. þingmanni um að sá efnahagslegi stöðugleiki sem er verið að fókusera á þarna felist í að gengi krónunnar haldist stöðugt. Ég er ekki búinn að fá það alveg skýrt en það er líklega það. Ef það er markmiðið og þá sama hvort farin er stöðugleikaskattsleiðin eða að þrotabúin fari í nauðasamninga og fái, með því að skila peningum inn í Seðlabankann, vottorð frá Seðlabankanum sem þau geta farið með til dómstóla og fengið samþykkta nauðungarsöluna er í báðum tilfellunum peningum skilað inn í Seðlabankann. Þeir peningar verða aftur á móti í báðum tilfellum rétt tæpir 500 milljarðar og þá er spurningin: Hvernig er aðkoma þingsins að því að ráðstafa þeim? Það kemur fram í frumvarpinu að það eigi að gera það innan ramma efnahagslegs stöðugleika og stöðugleikaskilyrða Seðlabankans en þetta er samt sem áður á hlaupareikningi innan Seðlabankans sem ríkið á og samkvæmt stöðugleikaskattsfrumvarpinu er alveg skýrt að ráðstöfun fjármunanna verði í frumvarpi að fjárlögum. Eftir því sem ég best veit mun það ekki hindra stjórnvöld sem leggja fram fjárlagafrumvarp í að seilast í þetta kökubox, 500 milljarða kr. kökubox, í Seðlabankanum og nota það í eitthvað sem eykur þenslu og verðbólgu, keyrir upp lán, minnkar svigrúm til að semja um betri kjarasamninga o.s.frv. Það mun ekki stöðva löggjafann að frumkvæði fjárlagafrumvarpsins að fara í þessa þenslu. Norðmenn hafa læst olíusjóðinn sinn inni til að tryggja að olíugróðinn fari ekki í þensluhvetjandi verkefni og skapi óstöðugleika og skaðleg áhrif í efnahagslífi þeirra. Ef menn ætla að sækja eitthvað meira en á þeim forsendum sem hann hefur verið læstur inni, læstur frá stjórnmálamönnunum, verða þeir (Forseti hringir.) að breyta öllu kerfinu með frumkvæði að lagafrumvarpi, ekki bara í svona fjárlögum. Hvað finnst þingmanninum um þetta?