144. löggjafarþing — 128. fundur,  12. júní 2015.

lagasetning á kjaradeilur.

[14:08]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Menn hafa haldið því fram, bæði í þessum þingsal og utan þingsalar, að samninganefnd ríkisins hafi ekki haft neitt umboð, hún hafi verið umboðslaus. Ég held að þetta sé mikill misskilningur. Samninganefnd ríkisins hefur haft mjög skýrt umboð frá hendi hæstv. fjármálaráðherra um að semja aðeins á þeim nótum og samkvæmt þeim línum sem lagðar voru í kjarasamningum SA og Alþýðusambands Íslands.

Ég spyr þá: Höfðu þessir aðilar, svokallaðir aðilar vinnumarkaðar, siðferðilegan rétt til að leggja slíkar línur? Nei. Einfaldlega vegna þess að það var aldrei leitað eftir víðtæku samráði á launamarkaði um slíka stefnu. Ég spyr síðan: Hefur ríkisstjórnin og hæstv. fjármálaráðherra siðferðilegan rétt til að nýta sér þessar línur sem vegvísi í kjaramálum (Forseti hringir.) í opinberum stofnunum? Ég segi: Nei. Hefur hann stuðning Alþingis til að fara sínu fram í þessum efnum? Það mun reyna á það í atkvæðagreiðslunni um þetta makalausa frumvarp sem liggur nú fyrir þinginu.