144. löggjafarþing — 128. fundur,  12. júní 2015.

kjaramál félagsmanna tiltekinna stéttarfélaga BHM og Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga.

798. mál
[15:25]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég veit að hv. þingmaður veit betur. Heilbrigðiskerfið hefur í gegnum býsna langan tíma fengið of lítið af peningum og hv. þingmaður veit að í tíð þessarar ríkisstjórnar hefur verið forgangsraðað í þágu heilbrigðiskerfisins. (Gripið fram í.) Það hefur verið gert með umtalsverðum hætti, til að mynda þannig að fjárframlög til Landspítala – háskólasjúkrahúss hafa aldrei verið hærri (JÞÓ: Vantaði 3 milljarða.) þannig að við höfum staðið við þá stefnu sem meðal annars Framsóknarflokkurinn talaði um fyrir kosningar um hvernig við vildum forgangsraða. Það er ekki búið, við þurfum að ganga lengra. Við þurfum að tryggja að við getum haldið í þann mannauð sem er á Íslandi (JÞÓ: Ekki … núna.) og að því erum við að vinna með því að ná vonandi heildarsamningum, skynsamlegum samningum sem viðhalda stöðugleika, og eigum þannig möguleika að byggja hér upp öflugt samfélag þar sem allir geta haft það gott og að jöfnuður haldi áfram að vera sá mesti í Evrópu í það minnsta eða innan OECD (Forseti hringir.) eins og við þekkjum að hann er í dag, árið 2015.