144. löggjafarþing — 128. fundur,  12. júní 2015.

kjaramál félagsmanna tiltekinna stéttarfélaga BHM og Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga.

798. mál
[21:27]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Ég kunni einhvern veginn ekki við að kveðja mér hljóðs í lið um fundarstjórn forseta, en ég verð að segja að ég er hálfforvitinn og langar að spyrja hvort hæstv. forseti geti útskýrt það þegar ég hef lokið ræðu minni hvort hið erlenda tungumál sem hér á að hafa verið talað, eða sem sagt hvort gagnrýni forseta hafi verið vegna orðsins „ókei“. Ég er bara að velta því fyrir mér vegna þess að ég heyrði ekki nákvæmlega hvað það var sem var gagnrýnt að væri ekki á íslensku, en mér dettur í hug að það hafi verið það orð. Mér þætti fínt að fá það á hreint þegar hæstv. forseti má vera að eftir þessa ræðu.

Við ræðum hér þetta verkfallsbann sem er hið fjórða á tveimur árum. Þegar kemur að verkfallsbönnum þá í fyrsta lagi stangast á brýnir almannahagsmunir eða öllu heldur í öðru lagi, vegna þess að í fyrsta lagi, fyrst og fremst eigum við að miða við félagafrelsi stjórnarskrárinnar og þann rétt sem menn hafa til þess að semja um kaup og kjör. Það er réttur sem ekki má ganga á nema vegna brýnna almannahagsmuna. Og þá er sönnunarbyrðin að sjálfsögðu ávallt hjá yfirvöldum sem vilja banna verkfallsaðgerðirnar, það er alltaf þannig. Í þeim þremur verkfallsaðgerðum sem hér hafa verið bannaðar fyrr á þessu kjörtímabili hefur verið mikill ágreiningur um lögmæti þeirra banna vegna þess að mönnum hefur ekki verið ljóst hvort nægilega brýnir almannahagsmunir hafi verið fyrir hendi til þess að banna verkfallsaðgerðir. Ég ætla ekki að rekja það neitt sérstaklega mikið meira heldur fjalla um það í þessu sambandi að ef einhverjir segja að í þessu tilfelli séu brýnir almannahagsmunir fyrir hendi þá vil ég fyrst taka það fram að samkvæmt umsögn Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga er svo ekki, vegna þess að það eru gerðar ráðstafanir, það eru veittar undanþágur í neyð til þess að það skapist ekki neyðarástand vegna verkfalls hjúkrunarfræðinga. Það er því gert ráð fyrir því og það eru alltaf einhverjir hjúkrunarfræðingar að störfum þegar upp koma neyðartilfelli og það er gert sérstaklega til að koma til móts við þá staðreynd að þetta má ekki kosta mannslíf. Allir hljóta að vera sammála um það.

Það sem við ættum líka að íhuga þegar kemur að þessu er ekki bara lögmæti þess að banna þetta tiltekna verkfall, því að jafnvel ef okkur tækist að útkljá þá spurningu með þeirri niðurstöðu að það væri siðferðislega lögmætt eða stæðist lög gagnvart stjórnarskrá þá er önnur spurning sem við þurfum líka að spyrja okkur og svara: Er það skynsamlegt? Mun það leiða til þess að krísunni ljúki? Ég held nefnilega ekki. Ég held að ef við bönnum þetta verkfall, hversu lögmætt svo sem við getum sannfært okkur um að það sé, þá leiði það einfaldlega til þess að lífsnauðsynlegt starfsfólk segi upp störfum og fari ýmist að vinna við eitthvað annað eða hreinlega flytji úr landi.

Það var hér mótmælandi í dag, virðulegi forseti, sem ég tók eftir að var með skiltið „Hej Norge“. Hæ Noregur, ef ég skil rétt. Og í því felst auðvitað það að staðan hjá þessum hópi samfélagsins er orðin þannig að hann vill helst ekki vera á landinu vegna þess að hann veit eða telur sig vita að hann muni aldrei fá hér nógu góð kjör til þess að lifa af í okkar góða landi. Athugið að þetta er skynsemisspurning, þetta er ekki lögfræðileg spurning, þetta er taktísk spurning, spurning um hvað sé skynsamlegt að gera til þess að ná ætluðum markmiðum. Ég geri ráð fyrir því, virðulegi forseti, að hið ætlaða markmið sé að halda uppi fyrsta flokks heilbrigðiskerfi. Það er greinilega þannig sem þjóðin lítur á málin og hún hefur mjög afdráttarlaust, og það ætti ekki að koma neinum á óvart, sýnt það og lýst því hvernig heilbrigðiskerfið er í raun og veru og til að byrja með aðalréttlæting ríkisins á Íslandi. Í stærra samhengi og lengri sögu má segja að varnir landsins séu réttlæting ríkis. En með hliðsjón af þeim áhyggjum sem fólk þarf almennt að hafa í daglegu lífi er það klárlega heilbrigðiskerfið sem er mikilvægast og er það samkvæmt skoðun yfirþyrmandi meiri hluta landsmanna. Þetta er mjög skýrt, þetta er algjörlega greinilegt.

Með hliðsjón af því að það er afgangur í ríkissjóði og með hliðsjón af því að menn ætla í skattalækkanir og með hliðsjón af því að fyrir skömmu var farið í svokallaðar skuldaleiðréttingar þá finnst mér það ekki sannfærandi rök að menn vilji ekki hækka þessi laun af ótta við hvaða áhrif það hafi á efnahaginn. Ef menn væru hræddir við það ættu þeir væntanlega ekki að vera í skattalækkunum og skuldaniðurfellingum á sama tíma. Eftir því sem ég fæ best séð þá hefur það sömu efnahagslegu áhrif. Eini munurinn er stærðargráðan. Ég tala nú ekki um ef menn tala síðan einhvern veginn þannig að það megi ekki ofhita kerfið en segja líka á sama tíma að það þurfi að gefa því einhverja innspýtingu, mér finnst þetta allt saman mjög ruglingslegt með hliðsjón af því hvernig forgangsröðunin á að vera hér. Hún á að vera í þágu heilbrigðiskerfisins. Ég sé engan ágreining um það.

Út frá þessum forsendum er ég ekki hlynntur því að setja þessi lög. Það er bæði vegna þess að ég tel ekki sýnt fram á það enn þá að þetta sé nauðsynlegt vegna brýnna almannahagsmuna. Það má deila um það, vissulega, en sönnunarbyrðin liggur hjá yfirvöldum sjálfum. Það má vel vera að seinna í þessu máli gæti ég sannfærast um það, en þá stendur eftir að ég tel þetta ekki skynsamlega lausn, þetta er ekki lausn. Þetta dýpkar vandann, þetta gerir vandann erfiðari og þyngri viðureignar en ella. Ég tel það algjörlega óhjákvæmilegt þegar kemur að þessu.

Ég vil líka vekja athygli á því að skaðinn er að ákveðnu leyti skeður með framlagningu þessa frumvarps. Það eitt að við erum komin á þennan stað hefur valdið talsvert miklum skaða. Hjúkrunarfræðingar eru að segja upp og það er búist við því að þeir muni segja upp í meira mæli í mjög náinni framtíð, sennilega strax á mánudaginn. Það er grafalvarleg staða og hún er afleiðing þessa frumvarps, bein afleiðing þessa frumvarps. Þannig að frá taktísku sjónarmiði er ég því ekki hlynntur þessu, jafnvel ef það væri bara það, ég held einfaldlega að þetta leysi ekki vandann.

Að mínu mati, og ég geri mér grein fyrir því að þingmenn sjá ekki um að semja við þessa aðila, þá verður að hækka laun þessa fólks. Ef það kostar einhverja smáverðbólgu þá verður bara að hafa það. Auðvitað ekki ef hún er algjörlega villt og galin, það þarf að meta það einhvern veginn, en að minnsta kosti sé ég hvorki fram á það að samþykkt þessa frumvarps muni leysa vandann né sýnist mér að þær samningaviðræður sem hafa átt sér stað nú þegar hafi gert mikið gagn, þannig að þetta er óttaleg pattstaða.

Auðvitað hefði verið gott ef við hefðum rætt þetta mál hérna fyrr, eins og var reyndar beðið um mjög mikið, mjög lengi, síðan var kvartað undan því hér að við værum að biðja um það. Við þingmenn minni hlutans stóðum hér í ræðustól trekk í trekk og kröfðumst þess að ræða kjaradeilurnar á sínum tíma. Ég held að það hefði verið til bóta til þess að geta rætt það hvernig við ætlum að hafa þessi mál til framtíðar, fyrir utan það auðvitað að við værum þá kannski öll betur inni í því hvernig þessum samningaviðræðum hefur verið hagað hingað til. En því miður var ákveðið af hæstv. forseta að ræða rammaáætlun í staðinn eins og við höfum svo oft kvartað hér undan. Ég ætla ekki að tíunda það hér mikið meira.

Að því gefnu að þetta frumvarp verði að lögum sama hvað tautar og raular í þeim sem eru á móti því vil ég þó leggja til að það þurfi nokkrar breytingar. Þær hafa nokkrar verið reifaðar hér áður, ég hef ekki tæmandi lista yfir þær sem þarf að leggjast í, en það sem skiptir að mínu mati hvað mestu máli og það er eftir samtöl við ýmsa aðila sem þekkja til, er dagsetningin, það er viðmiðunardagsetningin um það við hvaða kjarasamninga eigi að miða. Í frumvarpinu er það 1. maí. Það var auðvitað eftir að gerður var samningur við lækna fyrr á árinu. Að mínu mati þarf að færa þetta alla vega til 1. janúar til þess að það sé einhver möguleiki á því að gerðardómur komist að annarri niðurstöðu en þeirri sem ríkið hefur lagt fram sem sína tillögu í kjaraviðræðunum sjálfum. Að öðrum kosti, þ.e. ef frumvarpið fer í gegn eins og það er núna, þá er þetta einfaldlega lögsetning á tilboðinu sem ríkið hefur boðið. Þá er eins og maður sé að semja við einhvern, allt í lagi, viðkomandi vill fá eitthvað og maður býður honum eitthvað, það gengur ekki, allt í lagi en þá eru komin lög: Nú skalt þú bara éta það sem þér er boðið, það sem úti frýs, það sem borið er á borð. Og það gengur ekki, virðulegi forseti. Mér finnst það afleit staða til að setja fólk í, verð ég að segja.

Í 3. gr. frumvarpsins er tilgreint í reynd að þeir aðilar sem hér eiga að vera að semja sín á milli verði einfaldlega að éta ofan í sig það sem ríkið vill. Það eru ekki samningaviðræður. Mér er reyndar illa við það persónulega, virðulegi forseti, að menn ofnoti orðið „ofbeldi“, mér finnst það ofnotað bæði í þessari pontu og reyndar víðar í samfélaginu, en þetta minnir mann vissulega á ofbeldi. Það er vissulega hægt að líta svo á með hliðsjón af því að þetta setur hinn aðilann í samningaviðræðunum í þá stöðu að hann getur ekkert gert, hann hefur ekkert val. Það er vitaskuld ofbeldiskeimur af öllu slíku þegar fólki er ekki gefinn neinn sjens, það skal bara taka þessu og þannig er það og ekkert meira. Þessar dagsetningar skipta því miklu máli. Það skiptir miklu máli eftir hverju á að fara við gerð kjarasamninga eftir gerðardómi.

Síðast en ekki síst langar mig að reifa grun sem ég hef, sem ég hef reifað hér áður þegar kemur að heilbrigðismálum. Hann er sá að það sé enginn sérstakur vilji til þess að hafa hið opinbera heilbrigðiskerfi í það miklu lagi að ekki sé svigrúm til þess að einkageirinn fái notið sín. Ég hef miklar áhyggjur af því þótt það sé sennilega ekki meðvitað á meðal þeirra sem eru á móti samneyslunni eða telja hana of mikla, að ómeðvitað sé þeim hreinlega aðeins meira sama um að opinbera heilbrigðiskerfinu gangi illa en ef einkarekna heilbrigðiskerfinu gengi illa. Jafnvel ef svo er ekki, ég vona auðvitað að sá grunur minn sé rangur, við skulum gefa okkur að svo sé, þá má þetta ekki líta út eins og svo sé. Þegar kemur að heilbrigðiskerfinu, sem ég ítreka enn og aftur að er í fyrsta sæti yfir það sem íslensk þjóð krefst af okkur í forgangsröðun, þá er það skylda okkar að sannfæra þessa þjóð með gjörðum að við ætlum að standa við það að heilbrigðiskerfið sé í lagi. Við vitum að það er ekki í lagi, við vitum að þetta er krísa, við eigum ekki að sætta okkur við það og ef það kostar peninga þá eigum við að borga þá peninga. Við höfum svigrúmið til þess, að mínu mati höfum við ekki annarra kosta völ. Ég ítreka að ég átta mig á því að þetta er ekki ákvörðun Alþingis en það sem er hins vegar ákvörðun Alþingis er hvernig umgjörðin um þessi mál er. Þess vegna áttum við að ræða þetta hér fyrr og lengur eins og reyndar var gert að tillögu á sínum tíma, ég ætla ekki aftur nánar út í það. En hvað sem mönnum finnst um einkavæðingu á móti samneyslunni, á móti stjórnarskrá eða brýnum almannahagsmunum vil ég ítreka að alveg sama hvaða réttlætingar menn finna fyrir þessu, þá er þetta ekki lausn, virðulegi forseti, þetta er ekki lausn.

Að lokum legg ég til að fundir fastanefnda Alþingis verði að jafnaði opnir.