144. löggjafarþing — 128. fundur,  12. júní 2015.

kjaramál félagsmanna tiltekinna stéttarfélaga BHM og Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga.

798. mál
[22:06]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Í sjálfu sér er þetta ekki einu sinni spurning um hvaða skoðun ég hef eða hv. þm. Brynjar Níelsson. Ég tek það fram, af því að hv. þingmaður segir að ég sé alltaf að æsa hann til ræðuhalda, að það er bara vegna þess að mér finnst gott að sitja við skör meistarans og nema. Hann slær alltaf tiltölulega bjartara ljósi á flókið rökgengi réttarkerfisins þegar hann á orðastað við okkur þingmenn. En þetta er ekki spurning um hvað mér finnst, þetta er ekki spurning um hvað hv. þingmanni finnst. Þetta er spurning um hvaða rétt stjórnarskráin veitir. Hún veitir samningsfrelsinu töluvert mikinn rétt, verkfallsréttinum líka, en það eru kvaðir á honum. Ég er sammála honum um það.

Við sérstakar aðstæður þegar svo er komið að líf og limum er hætt og það eru miklar efnahagsbúsifjar, er það alla vega ljóst af dómaframkvæmdum, og það er hugsanlega líka í samræmi við almenna skynsemd sem sum okkar búa yfir í þessum sal, að það sé rétt að ljúka því með einhvers konar hætti. En þá verða menn að skoða hvernig er komið í þennan stað og ég er mjög ósammála því. En svo langar mig til að spyrja hv. þingmann: Hverjum er hann að bjarga? Hvaða lífi, hvaða limum er hann að bjarga til dæmis með því að setja lög á verkfall starfsmanna Sinfóníunnar, leikarafélagsins, Iðjuþjálfarafélagsins, Sálfræðingafélagsins, bókasafnsfræðinga? Telur hv. þingmaður að þetta mundi standast fyrir dómi? Telur hann þá ekki að það hefði verið lögfræðilega réttara og betra ef þetta hefði verið þrengt og einskorðað einungis við þær stéttir sem hv. þingmaður telur að séu svo mikilvægar að mönnum sé háski búinn af stöðunni eins og hún hefur þróast? Ég held að ef þetta verður skoðað fyrir einhvers konar dómstólum í útlöndum, ef málið fer svo langt, sé íslenska ríkisstjórnin í vanda.