144. löggjafarþing — 129. fundur,  13. júní 2015.

kjaramál félagsmanna tiltekinna stéttarfélaga BHM og Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga.

798. mál
[15:56]
Horfa

Frsm. minni hluta allsh.- og menntmn. (Guðbjartur Hannesson) (Sf):

Hæstv. forseti. Það hefur komið fram hjá hv. þm. Unni Brá Konráðsdóttur og í meirihlutaálitinu hverjir voru gestir á fundi allsherjar- og menntamálanefndar þegar fundað var í morgun og einnig að það var fundur í gærkvöldi sem undirbjó þann fund.

Nefndin klofnaði í meiri og minni hluta og minni hlutinn stendur sameiginlega að nefndaráliti sem ég ætla að leyfa mér að lesa að mestu leyti, með leyfi forseta:

„Minni hluti allsherjar- og menntamálanefndar mótmælir fyrirhuguðu banni við verkfallsaðgerðum aðildarfélaga Bandalags háskólamanna og Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga. Minni hlutinn mótmælir einnig óhæfilegum flýti á meðferð málsins sem hefur takmarkað mjög tíma fyrir viðkomandi félög til að gera athugasemdir við málið og til eðlilegrar yfirferðar hjá þinginu.“

Í þessu samhengi vil ég segja að við fengum að taka fyrir þá gesti sem óskað var eftir og ég ætla ekki að gagnrýna það. En það kom fram í máli þeirra sem voru beðnir um að koma með skriflegar athugasemdir eða koma umsögnum á framfæri að þeir fengu einn til þrjá klukkutíma til þess að svara. Það er auðvitað enginn frestur eða boðlegur aðdragandi fyrir stéttarfélög að svara með vönduðum hætti þó að í máli þeirra hafi komið fram meginþættir þeirrar gagnrýni sem þau höfðu á þetta frumvarp.

Ég les áfram, með leyfi hæstv. forseta:

„Verkfallsréttur er afar mikilsverður þáttur í rétti stéttarfélaga til að semja um kjör félagsmanna sinna, enda nýtur hann verndar stjórnarskrárinnar og mannréttindasáttmála Evrópu. Þeim rétti má ekki setja skorður nema nauðsyn beri til í þágu brýnna almannahagsmuna. Við mat á þeirri nauðsyn ber að líta til þess að það er beinlínis tilgangur verkfalla að setja þrýsting á gagnaðila til að knýja hann til samninga. Sérstaklega verður að gjalda varhuga við því að ríkið setji lög til að binda enda á verkföll sem er ætlað að knýja það sjálft til samninga.“

Þetta var töluvert mikið rætt. Það er afar óeðlilegt að ríkið sem annar aðili deilu setji lög til að knýja fram niðurstöðu. Og það er enn óeðlilegra þegar menn skoða svo það frumvarp sem hér liggur frammi sem er um það að gerðardómur skuli nánast koma með þá niðurstöðu sem hentar ríkinu. Nánar að því síðar.

Með leyfi forseta, ég les áfram:

„Minni hlutinn telur ekki sýnt að fullreynt hafi verið að ná samningum með eðlilegum hætti við viðkomandi félög. Samningar virðast öðru fremur hafa strandað á kröfu stjórnvalda um að miða samninga við viðkomandi félög við sömu forsendur og samninga á almennum vinnumarkaði, þrátt fyrir að grundvallarmunur sé á kjarasamningum á opinberum og almennum markaði. Af athugasemdum við frumvarpið virðist raunar mega greina að fyrirhugaðri lagasetningu sé öðrum þræði ætlað að knýja viðkomandi félög til að gangast undir kjarasamning á forsendum stjórnvalda. Í því felst mikið ójafnræði milli aðila og það getur ekki talist gildur grundvöllur fyrir banni við verkfalli.“

Það kemur mjög skýrt fram þegar menn bera saman samninga á opinberum markaði og almennum, varðandi prósentur og annað sem á að vera í samningum fyrir opinbera starfsmenn, að þeir eru eðlisólíkir. Það kom mjög skýrt fram í umræðum í nefndinni í morgun og hefur auðvitað komið fram í umræðunni í þinginu. Á almenna markaðnum eru ákvæði um að kjarasamningar séu lágmarkssamningar og síðan sé hægt að semja um viðbótarkjör fyrir einstök fyrirtæki og einstaka aðila o.s.frv. Slíka möguleika hefur ríkið ekki og jafnvel þar sem það er í lögum að það eigi að vera hægt að semja um viðbótarkjör í gegnum stofnanasamninga þá hefur það komið mjög skýrt fram í umræðunni að það ákvæði er meira og minna óvirkt vegna þess að það vantar fjármagn, sem er forsenda þess að geta samið um stofnanasamninga. Við teljum því að þarna sé ríkið að beita sínum öfluga krafti í verkfallsdeilu þar sem ríkið er sjálft annar aðilinn. Það hefur líka vakið athygli og var rætt töluvert hér í gær og líka í nefndinni að í frumvarpinu er samt alltaf talað um aðila í þriðju persónu. Aðilar hafa ekki náð saman og þess vegna gerir ráðherra eða ríkisstjórn eitthvað ákveðið. En það gleymist alltaf að ríkið er annar aðilinn. Þeir eru að lýsa sjálfum sér þegar þeir eru að fjalla um þetta og það kemur mjög skýrt fram í frumvarpstextanum.

Með leyfi forseta, ég les áfram:

„Minni hlutinn telur einnig skjóta skökku við að leggja eigi bann við verkfalli allra þeirra félaga sem 1. gr. frumvarpsins tekur til, enda þótt staða þeirra sé mjög misjöfn. Í athugasemdum við frumvarpið er raunar ekki vikið að áhrifum af verkfalli sumra þeirra stétta sem það tekur til og vandséð að neyðarástand hafi skapast vegna þeirra allra. Minni hlutinn telur ekki ganga að banna verkfall allra þessara stétta með vísan til áhrifa af verkföllum sumra þeirra. Furðu vekur að frumvarpinu sé jafnvel ætlað að taka til félaga sem ekki hafa boðað eða hafið verkfall.“

Ég er ekki viss um að allir þeir sem hér eru í salnum geri sér grein fyrir því að af sautján aðildarfélögum BHM sem eru í aðgerðum og er fjallað um í þessu frumvarpi eru aðeins fimm í verkfalli, aðeins fimm. Hér reynir stjórnarmeirihlutinn að setja fyrir fram verkfallsbann á stéttir sem sumar hverjar hafa strandað í félagsdómi með sína verkfallsboðun eða hafa hreinlega ekkert boðað verkföll. Það hlýtur að vera umhugsunarefni þegar menn beita jafn öflugu vopni og banni við verkföllum og ganga þannig á stjórnarskrárvarinn rétt og mannréttindaákvæði, vopni sem er einungis hægt að beita ef almannaheill eða neyð réttlætir það. Og minni hlutinn leyfir sér að efast um að með nokkrum hætti sé hægt að bera því við. Þetta kom fram meðal annars í umfjöllun í nefndinni.

Síðan er hér sagt í áliti minni hlutans, með leyfi hæstv. forseta:

„Minni hlutinn gerir einnig verulegar athugasemdir við 3. gr. frumvarpsins. Í 1. mgr. kemur fram að gerðardómur skuli eftir atvikum hafa hliðsjón af kjarasamningum sem undirritaðir hafa verið frá 1. maí 2015. Ákvæðinu virðist ætlað að tryggja að ákvörðun gerðardóms miðist aðeins við samninga sem hafa verið gerðir á almennum markaði, til samræmis við áherslur stjórnvalda, en taki ekki mið af nýlegum kjarasamningum á opinberum markaði, svo sem samningum við lækna og framhaldsskólakennara, líkt og stéttarfélögin gera kröfu um. Minni hlutinn telur óeðlilegt að gerðardóminum sé þannig falið að taka ákvörðun sem miðist við áherslur annars deiluaðila. Minni hlutinn telur einnig óviðunandi að ákvörðun gerðardóms séu ekki sett nein tímamörk.“

Varðandi þessi tvö atriði þá gerir minni hlutinn breytingartillögur. Þrátt fyrir að minni hlutinn ætli ekki að styðja frumvarpið telur hann sig bera skyldu til að reyna að bæta það ef það má verða til þess að það verði að einhverju leyti sársaukaminna. Fyrra atriðið er að gildistími þess samnings sem gerðardómur tekur ákvörðun um er ekki takmarkaður með neinum hætti í frumvarpinu. Það er gert ráð fyrir að gerðardómur geti ákveðið að vera með þetta til tveggja mánaða eða til sex ára eða tíu ára. Og þegar um er að ræða jafn alvarlegt inngrip og það að setja lög á verkföll þá teljum við rétt að tímabinda það og við gerum tillögu um að úrskurðartími gerðardóms verði að hámarki eitt ár, sem þýðir að menn verða þá að koma aftur inn í þingið og ræða hvort þeir ætli að framlengja samningana með valdboði eða hvort menn ætla að leysa mál með öðrum hætti. Markmiðið hlýtur að vera, heilbrigðiskerfisins vegna og allra þeirra stofnana í opinberri þjónustu sem um er að ræða, að samkomulag náist, eðlilegt og frjálst samkomulag á milli aðila þar sem er einhver framtíðarsýn og von til lengri tíma sem tryggir að við búum ekki við það ástand sem hér hefur verið undanfarið.

Hitt atriðið sem minni hlutinn bendir á og gerir breytingartillögu um er ákvæðið um 1. maí, þ.e. að hafa skuli hliðsjón af kjarasamningum sem undirritaðir hafa verið frá 1. maí. Það kom mér verulega á óvart að meiri hluti hv. allsherjar- og menntamálanefndar skyldi ekki vilja taka þá dagsetningu út. Ég hélt að þetta væru bara hreinlega mistök. Það er aðeins einn samningur undir sem þarna er verið að tala um að taka mið af. Hann er gerður í kringum þessi tímamót, 1. maí, og það er ekki einu sinni búið að samþykkja hann í almennum atkvæðagreiðslum. Það er vísvitandi reynt af hálfu ríkisvaldsins að sniðganga að leggja undir viðmið við kjarasamninga við opinbera starfsmenn þar sem eru framhaldsskólakennar og læknasamningarnir. Það finnst okkur mjög óeðlilegt og þess vegna gerum við tillögu um að þessi dagsetning verði tekin út og í staðinn sett að kjarasamningar seinustu missira verði lagðir til grundvallar. Það er líka lagt til af þeirri ástæðu að ef menn treysta gerðardómi til þess að ákveða kjör fólks þá er líka mikilvægt að hann hafi svigrúm, sé ekki takmarkaður með þessum hætti af öðrum aðila samnings. Gerðardómur hlýtur að vera fullfær um að ákveða hvort og að hve miklu leyti og hvernig hann tekur mið af öðrum kjarasamningum.

Það hefði verið ástæða til að setja inn fullt af öðrum atriðum í þetta nefndarálit, en undir það rita sá sem hér stendur, Guðbjartur Hannesson, Páll Valur Björnsson, Steinunn Þóra Árnadóttir og Helgi Hrafn Gunnarsson.

Annað sem var rætt en skilar sér ekki í nefndarálitið í tillöguformi var um skipun gerðardóms. Fram komu þau sjónarmið að eðlilegt væri að skipa gerðardóm þannig að báðir aðilar ættu fulltrúa, þeir skipuðu fulltrúa í gerðardóm og síðan yrði skipaður oddamaður. Þar voru ólík sjónarmið á milli félaganna, milli BHM og Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga og þess vegna er ekki gerð tillaga um þá breytingu.

Það varð líka mikil umræða um að hafa skýrara ákvæði, sem ég held að hafi verið síðast í flugmannasamningunum, um að Hæstiréttur skyldi skipa óvilhalla aðila sem væru ótengdir samningsaðilum til þess að sitja í gerðardómi. En við treystum á að Hæstiréttur gæti þeirra hagsmuna og menn fari ekki að gæta hagsmuna annars aðilans hvað varðar samningana þannig að við gerðum ekki tillögur um þetta.

Síðan komu auðvitað fram þau sjónarmið sem hefði kannski mátt lyfta meira hér, að það eru auðvitað miklar efasemdir um afleiðingar laganna á verkfallið. Menn eru að bregðast við ákveðnu ástandi, sérstaklega innan heilbrigðisstéttanna en þó líka hjá sýslumönnum og í matvælaiðnaðinum, en miklar efasemdir eru uppi hjá mörgum um hvaða afleiðingar lagasetningin muni hafa, að hún muni þýða uppsagnir, meiri flótta úr stéttinni, reiði og vonbrigði sem skili sér í óánægðu starfsfólki sem verði gert að vinna á stórum vinnustöðum eins og Landspítalanum o.s.frv. Það eru sjónarmið sem þarf að hafa í huga þegar menn taka slíkar ákvarðanir.

Meginniðurstaðan er sú að minni hlutinn styður ekki þetta mál en flytur engu að síður breytingartillögur til þess að reyna að betrumbæta það hér á lokasprettinum.