144. löggjafarþing — 129. fundur,  13. júní 2015.

kjaramál félagsmanna tiltekinna stéttarfélaga BHM og Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga.

798. mál
[16:45]
Horfa

Páll Valur Björnsson (Bf):

Hæstv. forseti. Já, þessi dagur er einn af þessum dapurlegu dögum í Alþingi. Því miður, frá því að ég varð þingmaður fyrir tveimur árum, þá eru þeir dagar miklu fleiri á þessum vinnustað en gleðidagarnir. Það reyndar munaði engu í síðustu viku að það yrði gleðidagur en okkur tókst nú samt að eyðileggja hann með hrópum og köllum héðan úr stólnum.

Þetta er dapurlegur dagur vegna þess að við erum að fara að setja lög, Alþingi er að fara að setja lög á stéttarfélög sem eru að berjast fyrir rétti sínum, stjórnarskrárbundnum rétti sínum. Það segir sig sjálft að það er mjög alvarlegt. Þetta er einn helgasti réttur sem nokkur maður hefur, að berjast fyrir launum sínum og bættri afkomu. Ég get ekki varist því að hugsa um það, þegar maður veltir því fyrir sér hvernig ástandið hefur verið í þjóðfélaginu síðustu tvö ár, frá því að hæstv. ríkisstjórn tók við — hún fór af stað með miklu og góðu fororði, alla vega í stefnuyfirlýsingunni, um að bæta andrúmsloft í samfélaginu, eyða pólitískri óvissu, vinna að heill og hamingju þjóðarinnar og eyða tortryggni, ég veit ekki hvað ekki stóð í þessu fallega plaggi. Það er eiginlega algjörlega ómarktækt plagg þegar maður fer að velta því fyrir sér. Ríkisstjórnin hefur til dæmis ekki verið mikið að reyna að sætta ólík sjónarmið og reyna að skapa frið í samfélaginu, því að hótanir um lagasetningu á verkföll hafa verið viðvarandi.

Ég get heldur ekki varist því að hugsa um það, hæstv. forseti, hvers vegna ástandið er svona. Þarf það að vera svona í þessu samfélagi? Ég tel að ríkisstjórnin sem nú situr við völd hafi markvisst gefið frá sér tekjur. Ég heyrði hv. þm. Jón Gunnarsson segja í útvarpsviðtali í síðustu viku — og stærði sig af því, sem er kannski allt í lagi — að þeir væru búnir að lækka skatta um 40 milljarða síðan þeir tóku við. Nú er ég ekkert sérstakur talsmaður þess að hér séu háir skattar, ekkert endilega, en þegar maður veltir því fyrir sér hvernig staðan er í þjóðfélaginu getur maður kannski réttlætt það á meðan verið er að byggja upp samfélagið eftir skelfilegt hrun. Hjúkrunarfræðingar og þeir sem vinna í heilbrigðisgeiranum tóku á sig gríðarlega vinnu og skerðingu út af því hruni, héldu heilbrigðiskerfinu uppi við skelfilegar aðstæður.

Góður maður sagði eitt sinn — ég er búinn að steingleyma hvað hann heitir, það var einhver enskur stjórnmálamaður — að ef heilbrigðiskerfið hrynur í samfélagi þá hrynur samfélagið. Það er bara undirstaðan í samfélaginu, gott heilbrigðiskerfi. Ég get ekki varist því að hugsa um þetta. Hvers vegna er þetta svona? Á fyrsta ári lækkaði ríkisstjórnin til dæmis tekjuskatt á millitekjuhópa um 5 milljarða. Þeir milljarðar hefðu verið fínir í heilbrigðiskerfið, til að byggja upp og styrkja heilbrigðiskerfið. Það hefur komið fram hér, í ræðu hjá stjórnarþingmönnum, að aldrei hafi verið lagður meiri peningur í heilbrigðiskerfið, aldrei. Það getur vel verið rétt, en það er greinilega ekki nóg.

Síðan hefur líka komið í ljós, í viðtölum okkar við málsaðila, að sú lausn sem nú er verið að leggja hér fram, að setja lög á þessi verkföll, er engin lausn. Það mun hugsanlega bara gera vandann enn verri og stærri. Ef fólk fer að segja upp í stórum stíl og fara í burtu, hvað kostar það samfélagið? Hafa menn eitthvað reiknað það út hvað það getur kostað ríkissjóð ef þetta fólk fer allt saman? Ég ætla rétt að vona að það geri það ekki því að við megum ekki við því að missa þetta fólk, við megum bara alls ekki við því. Það hefur líka komið fram að haldnir voru 24 fundir og ekkert gerist. Hvað er fólk að gera? Það fær mann til að hugsa líka: Eru þetta einhverjar sýndarviðræður? Er bara verið að halda fólki á snakki mánuðum saman án þess að nokkuð sé á bak við það, ekki neitt? Það er ótrúleg ósvífni, finnst mér.

Þetta var líka svona í fyrra, þegar við vorum kölluð út 18. júní, til þess að setja lög á flugvirkja. Þeir voru búnir að vera samningslausir frá áramótum. Maður veltir fyrir sér: Af hverju er ekki hægt að komast að einhverri niðurstöðu, af hverju er það ekki hægt? Það fær mann til að hugsa: Það er einhver sýndarveruleiki í gangi hérna.

Það er svo dapurlegt að þessi þjóð skuli þurfa að standa í þessu, 320 þúsund manna þjóð sem á svo mikið af auðlindum. Útgerðin skilar milljarðahagnaði, menn borga sér út milljarða í arð, ferðaþjónustan rýkur upp, er að verða stærsta atvinnugrein landsins, verslunin skilar milljarði í hagnað og ríkið skilaði þó afgangi. En hugsið ykkur hvernig ástandið væri ef ríkisstjórnin hefði ekki lækkað skatta og álögur á þá sem hafa það best í samfélaginu. Ég vil endurtaka það, ég er ekki endilega talsmaður hárra skatta. Auðlegðarskatturinn var tímabundinn, það var alveg rétt hjá núverandi ríkisstjórn, en það var alveg hægt að framlengja hann. Við hefðum getað framlengt hann um einhver ár til að byggja samfélagið upp. Við, þingmenn í Suðurkjördæmi, erum kallaðir á fundi með sveitarstjórnum, það vantar svo mikinn pening alls staðar, það er alveg sama hvað það er, samgöngur, hafnarmál, heilbrigðisþjónustu, hjúkrunarheimili. Þetta er alveg ótrúlegt ástand í landi sem á svona mikið af auðlindum.

Danir eiga engar auðlindir. Samt eru laun og velferðarkerfið þar miklu betur statt en hjá okkur. Hvað höfum við verið að gera hér síðustu 30, 40 eða 100 árin? Fyrir hvern erum við að vinna hér á Alþingi? Ég velti því oft fyrir mér, fyrir hverja erum við að vinna hérna? Hugtakið almannaheill á alltaf að vera í forgrunni í öllum ákvörðunum sem við tökum hér inni. Og við eigum að forgangsraða. Heilbrigðiskerfið er eitt það mikilvægasta í öllum samfélögum. Það kom fram í máli hv. þm. Jóns Þórs Ólafssonar að könnun, sem Píratar létu gera fyrir sig hjá Gallup, sýndi fram á að 91% þjóðarinnar, alveg sama hvar í sveit menn eru settir, vildi leggja höfuðáherslu á heilbrigðiskerfið. En það var ekki tekið mark á því, ekki frekar en öðru. Þessi ríkisstjórn tekur ekkert mark á því sem fólk segir. Við getum nefnt ESB, sem eru sennilega ein stærstu svik í sögu stjórnmála á Íslandi. Af hverju má ekki tékka á því? Af hverju má ekki skoða það? Það gæti verið eitt stærsta hagsmunamál heimilanna. Ég veit að margir eru á móti því en það gæti hugsanlega verið stærsta hagsmunamál heimila í landinu. Við erum alltaf að tala um heimilin hérna. Hvað um heimili hjúkrunarfræðinga og ríkisstarfsmanna, hvað með þá? Eru þeir ekki inni í þessari jöfnu, er það fólk ekki inni í þessari jöfnu?

Síðan er verið að tala um að setja lög á stéttarfélög sem ekki eru einu sinni farin í verkfall. Það stendur í þessum mannréttindasáttmálum og stjórnarskrá að ekki megi setja lög nema það ógni almannaheill. Ógna bókasafnsfræðingar almannaheill ef þeir fara í verkfall, eða Sinfónían? Það er verið að setja lög á verkföll þessa fólks eða banna því að fara í verkfall.

Hæstv. forseti. Mér finnst þetta dapurlegt vegna þess að með þessu lagafrumvarpi er með mjög alvarlegum og íþyngjandi hætti gripið inn í mikilsverð réttindi margs fólks og þau réttindi mikið skert, réttindi sem teljast svo mikilvæg, svo mikils virði fyrir fólk, að þau teljast vera mannréttindi í lagalegum skilningi og njóta verndar samkvæmt því. Í ljósi þess er mjög rík ástæða til að finna að þessari fyrirhuguðu lagasetningu. Lagasetning sem skerðir svo mikilsverð réttindi fólks á að vera algjört neyðarúrræði og þarf að styðjast við afar veigamikil rök og almannahagsmuni. Slík lagasetning þarf líka, ef hún á á annað borð að vera réttlætanleg, að vera mjög vönduð og í miklu samræmi við kröfur sem leiða af meðalhófsreglunni. Slík lagasetning þarf einnig að vera í fullu samræmi við aðrar mikilsverðar reglur og sjónarmið sem hafa mjög mikið vægi og þýðingu í réttarríkinu. Þar skiptir til að mynda jafnræðisreglan miklu máli, mjög miklu máli.

Það lagafrumvarp sem hér er til umfjöllunar stenst mjög illa alla þá mikilvægu mælikvarða sem stjórnvöldum í réttarríki er skylt að virða og taka mjög alvarlega. Það er til að mynda alveg ljóst að rök sem kunna að réttlæta lagasetningu gagnvart einum hópi eiga alls ekki við gagnvart öðrum. Það þarf að meta með tilliti til almannahagsmuna og réttinda hvers og eins hóps og þeirrar stöðu sem uppi er í samfélaginu vegna verkfalls hans. Svona pakkalausn, eins og þetta virðist vera, eins og felst í þessum lögum, er því stórfurðuleg og afar vafasöm lagalega svo að ekki sé meira sagt, eins og komið hefur fram í ræðum hv. þingmanna.

Þá eru í lagafrumvarpinu ýmis ákvæði sem hljóta að vekja alvarlegar spurningar og eiginlega mjög mikla undrun. Þar segir til að mynda, með leyfi forseta:

„Ákvarðanir gerðardómsins skulu vera bindandi sem kjarasamningur á milli aðila frá og með gildistöku laga þessara og gilda þann tíma sem gerðardómurinn ákveður.“

Getur það staðist að láta gerðardóm af þessu tagi ákveða gildistíma ákvarðana sinna án allra takmarkana í lögum? Er hægt að láta gerðardóm fá vald til þess að binda þannig stéttarfélögin og félagsmenn þeirra og svipta þá þannig í raun samningsrétti þann tíma sem gerðardómurinn ákveður að ákvarðanir hans skuli gilda?

Í lagafrumvarpinu segir einnig, með leyfi forseta:

„Gerðardómurinn skal við ákvarðanir um laun félagsmanna skv. 1. gr. og önnur starfskjör þeirra hafa hliðsjón af kjörum þeirra sem sambærilegir geta talist að menntun, störfum, vinnutíma og ábyrgð og, eftir atvikum, kjarasamningum sem undirritaðir hafa verið frá 1. maí 2015 og almennri þróun kjaramála hér á landi.“

Hæstv. forseti. Hvernig stenst það kröfur sem leiða að jafnræði og sanngirni að koma þannig í veg fyrir að gerðardómurinn megi líta til samninga sem nýverið hafa verið gerðir við lækna og kennara, þ.e. hópa sem eru um margt sambærilegir þeim sem eru í verkfalli nú hvað varðar vinnuréttindi og aðrar aðstæður sem máli skipta í þessu sambandi? Felst ekki í þessu mjög alvarleg lagaleg mismunun hvað varðar afar mikilsverðan rétt og hagsmuni þeirra sem í hlut eiga og alveg sérstaklega þar sem lögin taka af því fólki sem er í hlutaðeigandi stéttarfélögum mjög mikilsverð réttindi sem njóta mikillar verndar samkvæmt lögum og alþjóðlegum samningum?

Læknar og kennarar eru opinberir starfsmenn eins og það fólk sem er í þeim stéttarfélögum sem lagafrumvarpið, sem bannar verkfallið, nær til og eru því sambærilegir að því leyti og á ýmsan annan hátt. Ríkið ætlar því með ákvæðinu, um að gerðardómur megi ekki líta til nýgerðra samninga við lækna og framhaldsskólakennara, að mismuna þessum hópum mjög mikið hvað varðar afar mikilsverð réttindi. Stenst það jafnræðisreglur? Nú veit ég það ekki, ég er ekki lögfræðingur.

Okkur í Bjartri framtíð finnst þetta lagafrumvarp vont og ósanngjarnt og við getum ekki stutt það. Ég vona svo sannarlega að breytingartillögunum frá minni hlutanum verði tekið opnum örmum og þær samþykktar, það verður þá einhver bót á frumvarpinu. En við getum ekki stutt þetta. Eins og ég segi, þetta er sorgardagur, dapurlegur dagur, eins og ég sagði áðan. Þeir eru allt of margir hér á þingi, dapurlegu dagarnir.