144. löggjafarþing — 132. fundur,  16. júní 2015.

Jafnréttissjóður Íslands.

803. mál
[17:43]
Horfa

Hanna Birna Kristjánsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Ég vil líkt og aðrir hér þakka fyrir að þetta mál sé fram komið. Ég tel það viðeigandi í ljósi tímamótanna sem verða hér á næstkomandi föstudag og afar viðeigandi að þverpólitísk samstaða sé um það og að fulltrúar allra flokka eigi aðild að málinu. Það eru auðvitað risastór tímamót sem verða næstkomandi föstudag, mikilvæg fyrir okkur konur og mikilvæg fyrir Ísland. Þess vegna er ánægjulegt að þingið hafi ákveðið að taka höndum saman og efna til þessa verkefnis. Mér finnst forgangsröðunin rétt og verkefnin eru að öllum líkindum og vonandi farsæl og okkur öllum til sóma. Ég vildi því bara óska okkur til hamingju með það sem við ræðum hér í dag og vona að þetta verði enn eitt skrefið í átt til einstakra afreka sem Ísland hefur átt í jafnréttismálum á umliðnum árum.