144. löggjafarþing — 133. fundur,  19. júní 2015.

Jafnréttissjóður Íslands.

803. mál
[11:40]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P):

Kæru forsetar. Kæru hátíðargestir. Kæra þjóð. Innilega til hamingju með daginn. Á Íslandi ríkir ójöfnuður og því eru öll skref til jafnréttis framfaraskref, ekki satt? Konur hafa komist til valda víða en ójöfnuðurinn eykst og það hlýtur að vera bæði áhyggjuefni fyrir konur og karla sem og hvati til að halda baráttunni fyrir alvörujafnrétti áfram af miklum krafti. Ég lít ekki svo á að neinum alvörujafnréttissigri verði náð fyrr en ekkert barn á Íslandi fer svangt í rúmið, fyrr en gamla fólkið okkar og öryrkjar geta sofnað án þess að hafa áhyggjur af tómum ísskáp löngu fyrir mánaðamót. Styrkur okkar samfélags er aldrei meiri en veikasti hlekkur þess. Fátækt sú er stigmagnast er smánarblettur á samfélagi okkar sem býr að svo miklum auði sem móðir jörð og hafs faðir hafa fært okkur, örríkinu.

Mig langar líka að beina sjónum að kvenskörunugm sem ruddu veginn fyrir þær sem ljóma í dag í því kastljósi sem við beinum að þeim, allar þessar nafnlausu konur sem börðust fyrir því að fá að kjósa og, já, allir nafnlausu öreigarnir sem börðust fyrir þessum rétti sem loks varð að lögum fyrir öld. Og gleymum ekki konunum sem voru fyrstar til að hreinlega ryðja konum inn á þennan vinnustað, sjálfum kvennalistakonunum sem þorðu að búa til flokk án foringja. Þær ástunduðu róttæka tilraun til að hefja sig upp úr hefðbundnum stjórnmálahefðum, konurnar sem stofnuðu stjórnmálaflokka sem ég get sagt í ljósi eigin reynslu að er margfalt meiri vinna og margfalt meiri ögrun en að taka að sér eitthvert ráðherrasæti, oddvitakonurnar í kjördæmum úti í landi að ógleymdum konunum sem fá aldrei neina frægðarsól, eins og til dæmis sú kvennastétt sem nú þarf að lúta lögum á aðgerðir til að bæta kjör sín. Gleymum heldur ekki karlastéttinni sem laut líka lögum á verkfallsréttinn og telst til lögreglumanna. Þeirra kjör eru líka bág miðað við ábyrgð og vinnuálag.

Við erum ekki bara að glíma við kynjamisrétti heldur við ójöfnuð og óréttlæti. Það er enginn sérstakur fögnuður í mínu hjarta á þessum degi á meðan ég horfi upp á ónýtt og ómanneskjulegt kerfi sem lætur bræður mína og systur falla á milli möskvanna í lagatæknilegum þvættingi. Af hverju finnst okkur í lagi að fagna einum degi sem með timburmannakostnaði eftir hátíðarhöld dagsins fellur í gleymskunnar dá á meðan hér er fjöldi fólks sem er múraður inni í algjörri þögn og blindu því að við getum ekki séð sóma okkar í að tryggja að túlkunarsjóður þorni ekki upp árlega?

Það eru ekki bara kvenréttindi sem áunnust fyrir 100 árum. Nei, fátækir karlar fengu loks réttinn til að mega velja sér fulltrúa á þing. Gleymum því aldrei að við erum ekki bara að berjast fyrir konum og fagna árangri kvenna, heldur hljótum við að vera að berjast fyrir og fagna jafnrétti.

En er hér alvörujafnrétti á meðan við búum í samfélagi sívaxandi ójöfnuðar? Nei. Er hér jafnrétti þegar konur sunnan Hvalfjarðarganganna hafa aðeins um hálft atkvæði í dag miðað við konur norðan ganganna til að fá fulltrúa á þing? Nei. Er það jafnrétti þegar lögin ná ekki yfir alla og hér búum við enn við Jón og séra Jón í lagatæknilegum skilningi? Nei.

Ekkert mun breytast fyrr en konurnar taka sér stöðu í efnahagsmálum og koma með grunn að nýju kerfi þar í stað þess að apa upp valdaklíkukerfin og kasínófíknina.

Konur, tökum ekki valdið í fangið, verðum aldrei valdið. Ef við getum það ekki skiptir ekki máli hver er hvar.

Ég ætla að enda þennan ræðustól á ljóðinu Kona, sem um margt er enn raunsatt, eftir Ingibjörgu Haraldsdóttur, með leyfi forseta:

Þegar allt hefur verið sagt

þegar vandamál heimsins eru

vegin metin og útkljáð

þegar augu hafa mæst

og hendur verið þrýstar

í alvöru augnabliksins

— kemur alltaf einhver kona

að taka af borðinu

sópa gólfið og opna gluggana

til að hleypa vindlareyknum út.

Það bregst ekki.