144. löggjafarþing — 135. fundur,  23. júní 2015.

störf þingsins.

[13:55]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Þegar maður heyrir eitthvað sem fær blóðið til að sjóða af reiði getur verið bót í máli að það komi frá einhverjum sem maður þó ber mikla virðingu fyrir. Vonandi hefur maður þá rænu á því að róa sig áður en maður tekur til máls. Hér hafa einstakir þingmenn meiri hlutans ýjað að því að forsætisráðherra landsins og forseti þingsins séu lagðir í einelti. Einelti verður ekki rætt ítarlega af þolendum þess af hreinskilni án þess að fyrr eða síðar falli tár. Sem þolandi eineltis í æsku vekur það tilfinningar sem ég kann ekki við að lýsa of hreinskilnislega hér þegar fólk gjaldfellir hugtakið einelti með þeim hætti sem hér hefur verið gert.

Að ráðamenn telji sig lagða í einelti segir mér tvennt um þá, þ.e. ef þeir sjálfir væru hér til að tala um það.

1. Að þeir skilja ekki hugtakið einelti.

2. Að þeir skilja ekki eðli sinnar eigin stöðu, forréttinda sinna og valds.

Glaður skal ég ræða þetta áfram við hv. þingmenn sem nefndir voru hér áður og alla þá sem vilja tala um þetta en ég ætla að láta þetta duga að sinni um það.

Það eru til lausnir á þeim vanda sem við eigum við að stríða hér. Þessi vandi lýsir sér varla í því að hér fyrir utan hið háa Alþingi sé hlið sem fólk gengur í gegnum og verður skyndilega að vondu fólki. Það getur ekki verið að það sé þannig. Sá vandi sem við eigum við að stríða hérna er kerfislægur, er hluti af reglunum sem við fylgjum og fyrirkomulaginu sem við vinnum eftir. Það er þar sem við eigum að reyna að finna lausnir frekar en að skammast hvert í öðru, hvort sem það er gagnvart meiri hluta eða minni hluta — sem við getum jú gert og gerum vegna þess að við erum öll fólk.

Við eigum að líta á kerfið, við eigum að líta á reglurnar. Hvernig getum við breytt fyrirkomulaginu sjálfu þannig að auðveldara sé að leysa mjög erfiðar deilur? Ég legg enn og aftur til að leiðin sé meira lýðræði, að gera það auðveldara fyrir þjóðina að kalla eftir þjóðaratkvæðagreiðslu um umdeild mál, fyrir minni hlutann og helst hafa fleiri leiðir.

Að lokum legg ég til að fundir fastanefnda Alþingis verði að jafnaði opnir.