144. löggjafarþing — 136. fundur,  24. júní 2015.

störf þingsins.

[15:41]
Horfa

Óttarr Proppé (Bf):

Virðulegi forseti. Ég vildi minna forseta á að nú er kominn 24. júní og Alþingi situr enn án starfsáætlunar. Á dögunum þegar þingið gerði hlé um helgi var ég staddur við Breiðafjörðinn. Þar sem ég sat innan um birki sem er farið að laufgast heyrði ég endalausan fuglasöng úr öllum áttum og þótt ég skildi ekki orð af því sem þessir fuglar sögðu upplifði ég að þeir væru hressir, jafnvel í rífandi stuði, og þessi upplifun mín gerði það að verkum að fuglasöngurinn hafði áhrif á mig og ég varð glaður. Fuglarnir settu tóninn.

Alþingi setur lög, en það er ekki eina hlutverk okkar. Alþingi er líka málstofa þar sem við ræðum málefni samfélagsins og þessi málstofa er áberandi. Við erum send beint út og það eru meira að segja fjölmiðlamenn í fullu starfi við að fylgjast með okkur og segja frá því sem hér fer fram. Það setur tón. Auðvitað hefur það sem hér er rætt og hvernig það er rætt áhrif út í samfélagið, alveg eins og fuglatístið hafði áhrif á mig. Umræðan er á ábyrgð okkar allra og umræðan á Alþingi markast ekki síst af því hvaða mál eru á dagskrá. Sú ábyrgð hvílir þungt á stjórnarflokkunum, hvaða mál þeir setja á dagskrá og hverju er haldið til streitu, og forseta Alþingis sem fer með dagskrárvaldið.

Það er kannski ekki skrýtið að sjá merki um upplausn úti um allt samfélag þegar upplausn ríkir í málstofu landsmanna á Alþingi. Það hlýtur að vera hægt að gera betur. Við alþingismenn kunnum alveg að tala saman, við erum ekki fuglar, við erum menn þó að vissulega megi halda því fram að það leynist nokkrir furðufuglar í hópnum. (Gripið fram í: Nefndu þá.) Tjah.

Að lokum vil ég taka undir með öðrum og minna á að félagslegi túlkasjóðurinn er enn tómur og það er skömm að því. Það vantar nokkrar milljónir til að tryggja lágmarksþjónustu, þ.e. 8–10 klukkustundir á ári fyrir heyrnarlausa. Fyrir 200 Íslendinga er túlkun lykill að þátttöku í samfélaginu. Í því samhengi vil ég minna forseta á það að hér á eftir erum við að ræða stuðning ríkisins við verkefni á Bakka upp á nokkra milljarða.

Alþingi er málstofa og það skiptir máli hvaða tón við setjum.