144. löggjafarþing — 136. fundur,  24. júní 2015.

uppbygging innviða vegna atvinnustarfsemi í landi Bakka.

800. mál
[16:30]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Ég bið hv. þingmann afsökunar á því að ég komst ekki í að svara spurningunni í hita leiksins. Hann spyr mig hvort ég hafi áhyggjur af því að ekki tókst að afgreiða breytingartillögur sem komu frá meiri hluta hv. atvinnuveganefndar varðandi virkjanir og hvort ég telji að það geti leitt til einhvers konar óþægilegs stopps í orkuframleiðslu. Ekki á þessari stundu, ég tel það ekki. Hvammsvirkjun kemur inn, það liggur alveg ljóst fyrir að hún hefur meirihlutafylgi á Alþingi.

Mér finnst óskiljanlegt, og hef bent á það, af hverju menn fara ekki í Búrfell 2. Ég skil það ekki, sú virkjun liggur fyrir og jafnvel þó að hún geti ekki farið alveg upp í það magn sem talsmenn Landsvirkjunar kynntu á fundi með heimamönnum í byrjun síðasta árs þá skiptir það eigi að síður verulega miklu máli.

Hv. þingmaður vísaði í góða bók og þar kemur afstaða mín alveg skýrt fram. Ég er þeirrar skoðunar og það hefur ekkert breyst varðandi laxarökin, ég er frekar harðari á því núna eftir að hafa skoðað málið betur, að ég er hlynntur tveimur virkjunum í neðri hluta Þjórsár. Ég hef sagt það og ég hef líka sagt það í þessari umræðu að ég hef efasemdir um Urriðafoss. Það kemur líka fram þar. Hæstv. fjármálaráðherra, hv. þm. Jón Gunnarsson og fjórir aðrir þingmenn Sjálfstæðisflokksins hafa líka sagt það, svo að það komi fram að ég deili þeim áhyggjum sem þeir hafa varðandi það.

Hvers vegna er ég þá áhyggjulaus? Vegna þess að ég tel að innan skamms komi verkefnisstjórnin fram með tillögur um 16 kosti eða hvort þeir voru fleiri, þeir voru alla vega 16. Ég er þeirrar skoðunar að innan rammáætlunarinnar eigi að afla orku. Hún var alltaf hugsuð, (Forseti hringir.) ég þori nú ekki að rifja það upp hver lagði það fram, sem leiðarvísir um það hvað (Forseti hringir.) ætti að nýta til orkuöflunar og hvað ekki.